Svarti hundurinn
Það er vont að finnast maður vera vond móðir, ástlaus eiginkona, leiðinleg vinkona og ættingi. Vont að líta í spegil og sjá bara súra, sviplausa kellingu, sem virðist eldast hraðflugi. Vont að þurfa að beita öllum sínum kröftum í að fara fram úr á morgnana og finna svo einhvern varaforða til að komast út úr húsi. Vont að geta ekki grátið, ekki hlegið, ekki haft áhuga á neinu, nema sofa.
Líkaminn segist vera þreyttur og þjáður. Skynsemin segir mér að hugurinn stjórni ferðinni og plati líkamann. Samt er ég þreytt og þjáð.
Verst er þegar fólk hrósar mér fyrir að líta vel út. Af því að ég hef grennst smávegis. Andlitið er fölt, tekið og laust við farða. Hárið er eins og heysáta. Fötin eru það sem fannst á gólfinu. Augun eru líflaus. En ég hef grennnnnnssssstttt! Jeiiiii. Kemur helst til af því að ég hef ekki áhuga á að borða frekar en að ég hafi áhuga á neinu öðru. Borða samt af gömlum vana, en ekki mikið. Ótrúlegt að þetta skuli vera það eina sem sumt fólk sér.
Hef loks fengið góðan sálfræðing. En það miðar hægt. Þarf ég stærri skammt af lyfjum? Þarf ég öðruvísi lyf. Á ég að hætta að taka þau og ,,tala mig út úr tilfinningunum"? Er mögulega eitthvað að mér líkamlega? Þori varla lengur til læknis til að láta segja mér einu sinni enn að það sé ,,ekkert" að mér nema vefjagigt og þunglyndi.
Þetta kast er lengra en flest þau sem ég hef gengið í gegnum. Mál er að linni. Yfirleitt næ ég að telja í mig kjarkinn með því að tauta: Á morgun er nýr dagur. Og oftast er nýr dagur daginn eftir. En þegar nýr dagur lætur á sér standa vikum saman, fer ljósið við endan á göngunum að dofna. Hvenær getur maður með góðri samvisku ekki meir? Aldrei. En hvenær þagnar samviskan? Vonandi aldrei heldur.
Gott er að eiga besta son í heimi. En takmörk eru fyrir því hvað maður vill leggja á barnið sitt. Finn eiginlega alltaf örlítinn þrekblossa til að vera mamma. En ekki alltaf. Það er það versta í heimi!
Þyrfti nauðsynlega að reyna að rifja upp samlíkingu mína með sykursýki og þunglyndi. Bæði ólæknandi. Lífsnauðsynlegt að fylgjast vel sjálfur með einkennum og tékka á sér reglulega. Lífsnauðsynlegt að vera undir eftirliti fagmanneskju. Og ekkert sem maður getur gert að því að hafa fengið þennan sjúkdóm (þ.e.a.s. sykursýki I).
Gott að rifja þetta upp. Man að ég er ekki aumingi, heldur veik. Vonast til að mér batni bráðlega.
7 Comments:
Æ, elsku Ester mín, við hugsum til þín og stöndum með þér! Ekki hika við að leita til mín, ef ég get gert eitthvað.
Vonandi að nýi læknirinn geri eitthvað af viti...
Jamm. Er búin að komast fram úr og fara í sturtu (klukkan er 14.45). Eftirmiðdagarnir eru skástir. Takk, takk. Ég á bara svo erfitt með tjáskipti augliti til auglitis í svona ástandi. Frábært að geta tjáð sig skriflega. Hjálpar.
Ég hugsa líka til þín og sendi þér sólargeisla frá Schweiz
já, ég held að það hljóti að hjálpa alveg helling, missir þá ekki allt samband við umheiminn á meðan.
Kær kveðja og ósk um bata. Vildi að ég gæti sent ykkur smá sól og hita, viss um að það myndi hjálpa.
ég hef alltaf sagt að kettir eru betri en hundar :-D
Elskurnar mínar! Ástarþakkir fyrir falleg orð. Þau hjálpa ALLTAF!
Post a Comment
<< Home