2007-02-10

Fljóttfljótt bloggið sem ég lofalofaði

Noh. Ég veit bara ekki hvenær ég náði að blogga síðast. Nú er sól bara farin að hækka á lofti - ég verð að koma því í verk að fá mér rúllugardínu á skrifstofunni, því sólin er farin að blinda mig við tölvuna.

Vinnustaðurinn í miðbænum varð illa úti í síðasta Gestgjafa, svo nú er allt á öðrum endanum þar að bæta málin. Búin að vera að semja starfsmannahandbók síðustu tvær vikur. Mikið um að vera en bara voða skemmtilegt. Það er að myndast almennilegur starfsmannaandi, jákvæðni, vilji og metnaður til að hafa þetta gott!

Svo eru auðvitað taldir niður dagarnir þar til Snorri kemur aftur - þeir eru 18! Í fyrsta sinn í þrjú ár verður hann heima á brúðkaupsafmælinu okkar (5 ár núna!) og á afmælinu sínu. Hann missti m.a.s. af eigin fertugsafmæli í fyrra en upplifði næturvakt í Afghanskri auðn og sá úlfahjörð... ekki slorleg afmælisgjöf það.

Alltaf er reytingur í Ömmu Ruth og nú eru dúkadagar... plögg, plögg. Stundum blogga ég til að plögga (tókuð þið eftir innríminu...)

Lífið er bara gott, enda hefur daglegur geðlyfjaskammtur verið endurvakinn.

2007-02-09

Ég er hér enn!

Ekki dauð, ekki hætt að blogga, ekki í útlöndum...

Bara svona rosalega bissí.

Blogga mjög fljóttfljótt - lofalofa

2007-01-29

Afmælisboðin tvö afstaðin

Og mikið var nú gaman. Mamma ætti bara að verða áttræð aftur fljótlega! Öll barnabörn foreldra hennar voru saman komin á sama tímapunkti og -stað TVISVAR á einum sólarhring. Slíkt hefur ekki gerst síðan einhvern tímann um jól fyrir 35-40 árum síðan. Einn frændinn heldur heim á leið til Manchester í dag, ein frænkan til Svartaskógar á fimmtudaginn, en sá frændinn sem hefur aðsetur í Svíþjóð, ætlar að vinna eitthvað hérlendis áður en hann heldur aftur til fjölskyldu sinnar þar. Fátt um fína vinnudrætti á hans slóðum í Svíaríki.

Fullt að gera í Ömmu Ruth á laugardaginn og því miður náði ég ekki að fara á tónleikana hans pabba. Varð að hvíla mig fyrir kvöldið, því ég var við það að missa mál af þreytu. Allan daginn í gær stóð ég svo í kaffiuppáhellingi, uppvaski og áfyllingu á kaffibrauði hjá mömmu. Hildigunnur kannast við að ég er bara nokkuð góð í slíku. Enda var ég komin í náttfötin um átta-leytið í gærkvöldi.

Ætla bara að kíkja í vinnuna í dag og vona að ekkert sér þar fyrir mig að gera. Í vinnunni hjá mér eru nefnilega ekki margir fastir liðir, heldur verkefni sem dúkka upp. Stundum er því allt á haus og stundum afskaplega þægilega rólegt. Ég er hins vegar búin að komast að því að því minna sem ég læt sjá mig, þeim mun minna fellur í mitt skaut af löðurmannlegum verkefnum sem aðrir, á lægri launum en ég, gætu innt af hendi með bundið fyrir augun. Það er því ákveðinn kostur fyrir fyrirtækið að ég komi ekki of mikið, en kannski ekki alveg eins gott fyrir veskið mitt. Ég bara get ekki hugsað mér að hanga þar daginn út og inn og dunda mér í einhverju föndri, bara til að fá feitari útborgun. Þá vil ég frekar fara í göngutúr, sauma, blogga eða klippa á mér táneglurnar.

Ætla nú samt hér með í sturtu og svo í heimsókn í vinnuna. Geymi sem mestan orkuskammt fyrir læknisheimsóknina seinni partinn, svo ég geti heimtað lausnir við geðrænum vandræðum.

2007-01-27

Stígandi

er yfir mér. Kom óskaplega miklu í verk í gær og dagurinn í dag er þéttsetinn, sem og morgundagurinn. Kvíði svolítið að ganga of nærri mér, en get ekki sleppt neinu af því sem er að gerast:

Opið í Ömmu Ruth til 15.45 (ekki 16.00 eins og venjulega)
Kl.16.00 fer ég á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Tónlistarskólanna í Langholtskirkju, þar sem frumflutt verður verk eftir pabba.
Kl.19.00 verður forafmælisveisla fyrir mömmu (hún verður 80 ára á morgun). Ég vélaði nebblega frændsystkini mín sem búa erlendis til landsins, svo við ætlum öll að hittast í kvöld. Það slagar sennilega í 30 ár síðan við vorum öll saman komin á sama stað á sama tíma. Mikil tilhlökkun. Mamma alveg í skýjunum yfir þessu framtaki mínu, og eins því að þau skyldu öll hlýða kallinu.

Á morgun er mamma svo áttræð og verður með heitt á könnunni heima hjá sér fyrir gesti og gangandi. Maður stendur auðvitað vaktina og það verður gaman líka. Geri ráð fyrir skemmtilegum degi.

Verst hvað mér gengur illa að sofa. Vont að keyra á skertum svefnskammti. Get ekki tekið mér frí á mánudaginn, en kannski á þriðjudaginn. Þá kemur Naiyana krúsídúlla til mín fyrir hádegi, svo kannski ég liggi bara í leti í hreinu og fínu húsi um eftirmiðdaginn. Ekkert kannski! Það er bara ákveðið hér með, og þá get ég hlakkað til. Keypti mér 4 pokketbækur í Góða Hirðinum í fyrradag, sem bíða lesturs, og svo er bútasaumsteppið góða alltaf til taks.

Mér sýnist nú á ofangreindu bloggi að ég sé bara í nokkuð góðu standi. Mér hættir bara helst til að verða frekar pirriteruð og geðfúl á kvöldin, þegar öll orka er uppurin en ýmis verk eftir.

2007-01-24

Hænuskref

Jæja, bloggfær að nýju. Að mestu. Verst að nú er bansett vefjagigtin búin að taka sig upp með hávaða og látum en ég hef varla vitað af henni í 2-3 ár! Mín tilgáta er sú að að þunglyndislyfin hafi hjálpað heilmikið upp á og að þegar áhrifa þeirra gætir ekki lengur er allt í drasli. Hins vegar, á meðan ég var með barni, var ég svo einbeitt og staðráðin í að vera ekki veik að ég bældi allt slíkt niður með hörku. Sem kemur mér sannarlega í koll núna.

Á tíma hjá heimilislækni næsta mánudag og þaðan fer ég EKKI út fyrr en hann er búinn að koma mér í hendurnar á færum geðlækni. Hef nefnilega verið geðlæknislaus í 3 ár, eða frá því minn yndislegi og ástkæri læknir hætti að reka stofu. Ætla ekki að byrja lyfjatöku á ný samkvæmt eigin höfði. Slíkt er aldrei ráðlegt, kannski síst með geðlyf. Í millitíðinni eru það stuttir vinnudagar (í mesta lagi 4 tímar), göngutúrar og fresta-forever því sem ekki er bráðnauðsynlegt.

Svo er janúar alveg að verða búinn! Febrúar er skárri af því að hann er þremur dögum styttri!

2007-01-18

Núllstilling

Þannig líður mér. Og það er ekki eins vont og ég átti von á. Alla veganna í dag. Einn dagur í einu, er það ekki?

Aðgerð gekk vel, fyrir utan mótefnasprautu sem gleymdist að gefa mér (ég er rhesus-negatív, ef það segir ykkur eitthvað), svo ég þurfti að drattast fram úr bæli í eftirmiðdag og koma mér aftur upp á spítala. Mamma var til halds og trausts og tengdapabbi keyrði fram og til baka í marggang. Strumpur kemur á nokkurra mínútna fresti til að veita mér knús og klapp. Bóndinn kemst ekki heim fyrr en á laugardag, vegna fannfergis í Kabúl, en hann kemur þó.

Mikið á ég góða að. Og gott er að geta munað það þegar illa gengur og geðið aumt.

2007-01-17

Botninum náð og dulúðinni aflétt

Óvæntri og afskaplega gleðilegri þungun minni, sem við hjónin vorum alveg búin að gefa upp á bátinn fyrir mörgum árum, er lokið. Ekki með fæðingu, heldur náði fóstrið ekki nema 9-10 vikna þroska og lést svo. Aðgerð í fyrramálið til að hreinsa út.

Bóndinn er á leiðinni heim frá Afganistan og nánustu vinir og fjölskylda umlykja mig en svartnættið er samt innan seilingar.

Sorg borin á torg? Kannski. Það verður þá bara að hafa það.