2006-10-30

Höfuðóreiða

Eða hauskaos. Ég og sála (kvenkyns sálfræðingurinn minn) komumst að þeirri niðurstöðu að ég væri svona nett rugluð af því að í höfði mínu ríkti stundum megn óreiða. Kaos hefur reyndar verið kallað ringulreið á íslensku en einhvern tímann sagði einhver mér eitthvað dónalegt því tengt og ég á erfitt með að nota orðið án þess að upp komi einhvers konar dónasena í höfði mér.

Óreiða ríkir oft í mínu heilabúi - alltaf að reyna að muna það sem ég gleymdi að skrifa niður, eða að gleyma að lesa það sem ég mundi eftir að skrifa niður. Og setja alls kyns óþarfa á má-ekki-gleyma lista sem eru bara til í höfðinu á mér.

Við tvenns konar aðstæður ríkir ekki óreiða:

A. Þegar ég er úti að ganga (og eitthvað eftir að göngu lýkur).
B. Þegar ég held jöfnum, nokkuð hægum, takti við allt sem ég geri. Þannig haga ég mér í vinnunni. Nú þarf ég bara að æfa mig að láta eins og ég sé í vinnunni heima hjá mér - ja svona að sumu leyti. Kannski ekki Lento eða Adagio (enda er sá taktur ekkert vinsæll í vinnunni), en svona Andante Moderato. Ekki Presto, eins og ég enda svo oft í. Það gengur bara hreint ekkert meira undan mér þannig og ég spana bara upp í mér einhvers konar heilahvirfilbyl.

Reyndar ríkir friður við nokkrar aðrar aðstæður, en þær fylgja yfirleitt ekki daglegu amstri, eins og liggjandi á ströndinni eða í nuddi eða í heitu baði. En þetta fellur auðvitað allt undir meðvitaðar slökunaraðgerðir.

Jæja, okkur hjónakornunum fannst 10.nóvember kannski fullseint, svo við fengum brottför til Florida breytt í 7.nóvember fyrir smáaur.

Þetta er auðvitað bara ógeðslega fyndið... Ef ég hlæ ekki að svona, þá leggst ég bara inn á geðdeild. Ætla frekar að hlæja.

2006-10-29

Alli Sæm Læt

Sem útleggst líka: Léttur Alzheimer.

Ætla ekki að klára ferðasöguna. Bara það sem flokkast undir fyrirsögnina (í og eftir ferð):

- Gleymdi uppáhaldseyrnalokkunum mínum á fyrra hótelinu. Hringdi samdægurs (og daginn eftir). Þeir hurfu.

- Gleymdi að láta Securitas hafa lykilinn að bílnum þegar ég var í Flugstöð Leifs hins heppna. Ætlaði að láta þá hafa lyklana, biðja þá um að færa bílinn yfir í langtímastæði, láta þrífa, og koma með hann aftur þegar við kæmum heim. Varð að hringja nokkur símtöl heim til að koma í veg fyrir að hann yrði dreginn í burtu og borgaði svo meira fyrir bílastæðið heldur en ég hefði gert fyrir alla hina þjónustuna (og auðvitað er bíllinn jafn gauðdrullugur og fyrir).

- Ætlaði til Florida með manninum 6.nóvember. Var búin að skrifa það í dagatal, segja vinnuveitanda, vinum og vandamönnum (og eiginmanninum). Var búin að segja þeirri sem ætlar að hýsa okkur. Var búin að segja syninum og var að garfa í pössun. Var búin að segja öllum kúnnunum sem eru að kaupa af mér á eBay og ég mun senda vörurnar til eftir að ég kem út. Nema við erum ekkert að fara fyrr en 10.nóvember... Hef enga skýringu. Keypti sjálf miðana. Var bara óvart að skoða þá í dag og hið óskýranlega kom í ljós.

- Man ekki eftir fleiru svona, en miðað við ofangreint, þá er örugglega fleira í gangi...

Hjálp!

2006-10-24

Helmingi meira að gera þegar betri helmingurinn er heima!

Svo heldur maður að þá geti maður dreift verkunum...

Jæja, þetta er allt skemmtilegt. Skulda víst ferðasögu frá Köben.

Dagur 1 (eða eiginlega dagur núll, því að bóndinn flýtti för og ég þar af leiðandi líka). Frábært að fara frá Keflavík rétt eftir hádegið - þvílíkt stressleysi og flugstöðin hálftóm! Náði í hina frúna í Kópavoginn og svo bara beinustu leið út á flugvöll. Í fríhöfninni náði ég í nýju gleraugun sem ég var búin að panta - svona líka ljómandi smart. Svo birgðum við okkur upp af snyrtivörum og fengum okkur hvítvínsglas. Um borð í vélinni tók ég veskið mitt upp og setti í vasann fyrir framan mig, svona ef ég skyldi kaupa mér rauðvín með matnum. Það kom sér svo heldur en ekki illa að brennivínsgenið í mér er frekar slappt, því rauðvínið keypti ég ekki og gleymdi svo veskinu í vasanum með litlum 4.500 dönskum krónum! Venjulega er maður nú ekki með svona fjárhæðir í beinhörðum með sér, á tímum kortanna, en þetta var ætlað í flóamarkaðsbrask fyrir Ömmu Ruth. Veskið hafði þar að auki verið tæmt af öllum bókasafns- og félagsskírteinum og ekkert til að auðkenna það mér, nema 2ja ára gömul mynd af Strumpi. Veskið hefur hvorki komið fram í Köben né hér heima og er víst óhætt að telja féð glatað mér. Ég vona bara að sá sem tók það hafi verið blásnauður námsmaður eða einstæð móðir...

Svona atvik fara víst saman í hópum og eru því tvö enn ótalin, en þau koma ekki fyrr en á degi 2.

Í Köben var smá bið eftir herramönnunum frá Afghanistan, svo við dömurnar skruppum yfir á Hilton til að næra okkur. Þar var boðið upp á hlaðborð sem okkur leist ágætlega á. Þegar við vorum búnar að borða kom reikningurinn og fannst okkur hann nú svona í hærra lagi fyrir hálfgerðan salatbar. Áttuðum okkur svo á því að annars staðar í salnum voru steikur og fínerí sem var innifalið en höfðu farið fram hjá okkur. Þar sem við vorum komnar með grænfóður og reyktan lax upp í kok og slepptum því bara. Það var akkúrat á þessari stundu sem peningahvarfið mikla uppgötvaðist. Mér vildi reyndar til happs að ég hafði tekið smávegis af peningum og sett í annað veski (aðallega af því að bunkinn var svo þykkur, ekkert til öryggis - því miður var veskið sem varð eftir í flugvélinni stærra og tók meira af seðlum). Einnig voru kortin vís, þannig að ég var ekki alveg lens.

Þannig fór það að þegar menn okkar birtust, var ég í taugahrúgu, hlaupandi um allan völl að leita að leiðum til að nálgast veskið.

Mér tókst nú samt að gleðjast yfir heimkomu herrans. Mikið var skrýtið hversu mikla virðingu og velþóknun fólk sýndi þeim þarna á flugvellinum (nokkrir Danir voru að koma líka). Reyndar rak einn upp undirskálaaugu og sagði: Íslendingar í einkennisbúning - eru Íslendingar nokkuð með her? Nei, sögðum við. Hvað eruð þið þá? Ekki her og ekki hér. Náunginn elti okkur út - bara svona ofurvenjulegur kurteis Dani - alveg gáttaður á þessu.

Þeir eru auðvitað í herbúningum þarna úti og á leiðinni heim til Evrópu. Á leiðinni heim eru þeir í venjulegum fötum. Á leiðinni út eru þeir í venjulegum fötum og fara svo inn á klósett til að skipta í Osló... Frekar spes...

Hvað sem öðru líður, þá eru þeir vissulega í einkennisbúningum við störf sín í Afghanistan og bera vopn sér til varnar, en það er nú svolítið langsótt að kalla 20-25 manns sem eru ráðnir í 3 mánuði her.

Jæja, bóndinn kallar á kvalitítæm. Framhald ferðasögu fljótlega.

2006-10-22

Komin aftur!

Jamm. Búin að endurheimta bóndann í Köben (s.s. hittumst þar og svo tók ég hann með mér heim) og lenda svo í bölv... tölvuvandræðum, sem skýrir langa þögn.

Köben var stórfín og veðrið dásamlegt. Þar var rölt um, borðar mikið af svakalega góðum mat og keypt heill hellingur af postulíni fyrir Ömmu Ruth. Nánari ferðasaga fljótlega.

Æðislegt að fá bóndann heim! Fæ að njóta hans fram í byrjun desember. Þá fer hann fram að jólum en verður svo heima yfir blájólin. Svo er hann farinn aftur, fyrir áramót, fram í byrjum mars. Stefnum á góðar og innihaldsríkar stundir saman, sumar með Strumpi og sumar án...

Bara rétt að gefa frá mér lífsmark - meira mjög fljótlega.

2006-10-08

Afmælið heppnaðist stórkostlega!

Mikið var gaman í Ömmu Ruth í gær! Stöðug traffík allan daginn - fólk þáði sérrí og konfekt og keypti allt mögulegt. Margir voru að koma í fyrsta sinn og voru agalega hrifnir - tóku spjöld hjá mér til að kynna fyrir vinkonum og frænkum - og ætla að koma aftur. Margir vinir og vandamenn litu líka við og héldu upp á daginn með mér.

Frábær dagur!

Nú verður lokað næsta laugardag, því þá verð í ég ,,innkaupaferð". Eiginlega er ég nú að fara að hitta hann Snorra minn, loksins, sem kemur frá Afghanistan í vikunni. Við ætlum að hafa það svo ljómandi huggulegt saman í nokkra daga áður en haldið er heim í hverdaginn. En það verður sko örugglega kíkt í nokkrar antikbúðir og á einhverja flóamarkaði... Annað væri ekki hægt, enda þarf ég að útvega nokkrum frúm muni inn í stellin þeirra.

Í kvöld er svo keila hjá starfsmönnum 101 hotel og verður eflaust mikið fjör að venju.

Gaman að vera til!

2006-10-07

Amma Ruth á afmæli!

Elsku lesendur - fyrirgefið fjarvistina. Ég hef verið á haus að undirbúa 2ja ára afmæli Ömmu Ruthar.

Í dag er semsagt afmælishátíð og 70% afsláttur af völdum vörum (Hildigunnur - m.a. af meðdiskum í stíl við bollana sem þú fékkst hjá mér...). 10% afsláttur er svo af öðru til vina og vandamanna, þ.m.t. blogglesenda. Það eina sem ekki er á afslætti eru vörur sem ég er með í umboðssölu.

Sérrí og konfekt handa öllum á meðan birgðir endast!

Mikið væri gaman að sjá ykkur sem flest.