2006-11-29

Brottför Snorra

er að bresta á. Aðeins 5 dagar eftir. Ferðinni var flýtt um 2 daga og okkur friðargæsluspúsum var tíðrætt um það í gærkvöldi að okkur fyndist við hafa verið sviknar illilega. Tveir dagar urðu allt í einu stórmál.

Þegar menn okkar eru þetta lítið heima, telur hver dagur. Svo er líka möguleiki að kvíði og fleira fái útrás í að býsnast yfir einhverjum 2 dögum, sem skipta kannski ekki öllu máli í heildarmyndinni. Mikilvægt að kanna tilfinningar sínar og skilja af hverju maður gargar allt í einu á greyið kallinn - er það virkilega af því að hann keypti gul epli í staðinn fyrir græn eða er það af því að hann er að fara og maður segist vera sáttur en er það kannski ekki fullkomlega. Mar' spyr sig...

Boð í nta veldi

Snorri fer aftur til Afghanistan á mánudaginn 4. desember. Því hafa alls kyns boð fjölfaldast. Á föstudaginn var vorum við boðin í kvöldmat til systur hans og mágs. Þar voru auðvitað kræsingar á boðstólum, að venju. Á sunnudaginn fórum við bæði í kaffi til foreldra hans og í bloggarakvöldverð til Hildigunnar. Yndislegar en ólíkar upplifanir. Alltaf jafn huggulegt að fara í kaffi til tengdó, því ekki eru þau bara yndislegt fólk, heldur er tengdó mikil eldhúskona og bakar og eldar af list.

Hildigunnur og hennar spúsi klikka nú heldur aldrei í matardeildinni og svo var það viðbótaránægja að hitta hina og þessa bloggara, tala frönsku við spúsa Parísardömunnar og hitta Baun, sem ég reyndar man eftir úr menntaskóla. Frábært kvöld.

Svo tóku okkar eigins bjóð við. Í gærkvöldi var Friðargæslusammenkomst - þrír félagar Snorra ásamt eiginkonum og börnum. Hver kom með eitthvað á borðið og við lögðum til bætta Ora humarsúpu. Svona stöndum VIÐ okkur nú í matargerðinni... Tókst vel og skemmtilega - fullt af fallegum, vel uppöldum og skemmtilegum börnum frá tæplega 1 árs upp í 14 (Strumpur var aldursforseti ungviðisins).

Í kvöld koma svo tengdó, mamma og systir mín í kvöldkaffi, á föstudaginn kemur mágkona mín og svili, ásamt dætrum, í kvöld mat og á laugardagskvöldið koma stór- og spilavinir okkar Haddi og Ella í kvöldmat og spilerí. Hef ekki tekið svona törn lengi. En þegar búðið er að taka almennilega til og byrjað að baka og elda, gengur þetta allt upp.

Gamlir (ótrúlega góðir) vinnufélagar

Frábært að koma upp í Vogaskóla og þar þekki ég næstum alla starfsmenn. Lítil starfsmannavelta hlýtur að benda til stöðugleika og vellíðanar. Flestir heilsuðu mér eins og ég hefði aldrei farið. Frábært að hitta aftur þetta skemmtilega, fróða og góða fólk! Líka þá krakka sem ég kannast enn við, þótt flest þeirra séu nú útskrifuð.

Kennsla á ný!!!

Ég var varla lent þegar hringt var í mig frá Vogaskóla - mínum gamla vinnustað - og ég var beðin um að taka að mér afleysingar í 2 vikur (sem enduðu svo reyndar með að verða 3). Samfélagsfræði í 8. og 9. bekk og íslenska í öðrum 9. bekknum. Ég sagði jahá (hef saknað kennslunnar) og byrjaði föstudaginn var.

Úffffff. Var aðeins búin að gleyma að þótt þetta sé voðalega gaman og gefandi, er þetta grimmilega þreytandi. Hef ekki unnið í svona desibelastyrk í meira en 2 ár. Annars eru krakkarnir ágætir - bara sumir svolítið órólegir.

Hef þurft að taka upp gamlan sið og leggja mig eftir hádegið, til að halda andlegri og líkamlegri heilsu.

Það er allt í lagi - bara notalegt. Svo gengur mér eiginlega bara betur að sofna á kvöldin ef ég er ekki örmagna. Sef sem sagt miklu meira og það gefst mjög vel.

Ætla samt ekki að skella mér í kennslu aftur nema ég fái tilboð um enskukennslu. Það er mitt fag og þar er ég á heimavelli.

Snjórinn bjargaði

mér þegar ég kom heim frá Florida. Var ekki einu sinni með úlpu þegar við lentum - vafði mig inn í tvö sjöl, því snjónum kyngdi niður. En þrátt fyrir lágt hitastig, gaf snjórinn kærkomna birtu.

2006-11-18

Síðasta sólbaðið búhú!

Þá er Floridatúrinn að lokum kominn. Ætla að leggjast smástund í síðasta sólbaðið, klára svo að pakka. Heimferð í kvöld. 8 stiga frost heima. Bannað að eyðileggja síðasta daginn með því að hugsa um það - verð með Alzheimer þar til í fyrramálið.

Hvað var ég aftur að segja?

2006-11-15

Jólagjafainnkaup - BÚIN!

Jamm. Því lauk í dag. Í afslöppun og rólegheitum. Svona á að hafa þetta.

Í fyrradag var kalt (upp á flórídskan máta). Ég var nú áfram berfætt, en með létta gollu í farteskinu. Í gær var aftur orðið það hlýtt að tíkin Daisy fékk smá hitaáfall eftir að hafa náð í spýtuna sem húsbóndinn kastar fyrir hana einu sinni of oft. Hún var drifin inn, látin drekka og sett fyrir framan viftu með tvo ískubba úr frystinum við búkinn. Hún var nú fljót að jafna sig, greyið, en okkur brá svolítið að sjá hana allt í einu skjögra um og halda sér ekki uppréttri.

Bæði gærdagurinn og dagurinn í dag fóru í gjafainnkaup en alveg hreint átakalaust. Nú er því lokið, svo við tekur bara alvöru afslöppun fram á föstudag, en þá er ferðinni heitið til Mount Dora, þar sem risaflóamarkaður/antikmarkaður fer fram um helgina. Hlakka fullt til. Og þar eru víst tvær fjörgamlar íslenskar frúr sem reka bar. Þangað ætlum við að kíkja og heilsa upp á þær. Skilst að þær séu systur og m.a.s. skyldar einhverjum fallhlífarstökkvara sem Snorri kannast við. Lítill heimur...

Hlýindakaflanum lýkur á laugardagskvöldið, þegar við fljúgum heim. Þetta á nú samt eftir að fleyta mér ansi lengi...

2006-11-12

Eftirköst og margarítur

Við Kolla sendum kallana að henda sér út úr flugvélum. Kallinn minn vildi reyndar að ég kæmi með og sæti með aðdáunarsvip í ca 72 tíma. Reyndar var það nú einna helst vegna þess að hann langar til að vera með mér... EN... ég samdi um að kaupa allar jólagjafirnar ef ég fengi að sleppa... Hann var fljótur að samþykkja.

Í gær fórum við Kolla semsagt í búðarrölt og skemmst er frá að segja að við ætluðum varla að koma öllu sem við keyptum inn í litla bílinn hennar... Hún er reyndar nýflutt og þurfti ýmislegt til heimilisins, en ég lagði alveg mitt til.

Eftir margra tíma sjoppíng, fórum við á Cheesecake Factory, þar sem ég var fljót að svolgra í mig tvær margarítur.

Eftirköstin eru nú þannig að við höldum að við komumst ekki af stað fyrr en eftir hádegi í sjoppíng töku tvö. Já, það er ýmislegt eftir á tossalistanum hjá okkur báðum. Vorum þó sammála um að dagurinn í gær hefði verið ansi hreint góður og okkur tekist vel til. Best var auðvitað hvað við gerðum glettilega góða díla.... múhahaha. Hún þekkir allt út og inn og ég fékk fínustu gjafir og föt á sprenghlægilegu verði. Kortin mín eru ekki einu sinni farin að volgna. En spurningin er hvort um nýjar töskur og yfirvigt verði að ræða. Obbobbbobbb.

Skýjað í dag, en HLÝTT... sendi öllum sem skjálfa heima smá yl.

2006-11-09

Ég er í FLORIDA!!!

Og sólin skín... hahahahah..... Svona er dagsprógrammið:

1 klst sólbað
1 klst útsaumur
1 klst skriftir (skúffubókin...)

Restin af deginum: sofa, tsjilla, lesa, tsjilla... svona á lífið að vera í fríi...

Um helgina ætlar bóndinn að henda sér út úr flugvél (með græjur á bakinu til að húkka ekki í jörðina) og drekka nokkra bjóra með gömlum félögum. Á meðan ætlum við Kolla (sem við búum hjá) að fara á ströndina og í mollið. Bara snilld...

Skjáumst síðar.

Ein afslöppuð og hamingjusöm.

2006-11-02

Hraunað yfir Hive

Gerði þau afdrifaríku mistök fyrir réttum 3 vikum að láta undan þrýstingi frá Strump og skrá mig hjá Hive til að fá miklu-meiri-hraða-fyrir-miklu-minni-pening.

Eða ekki.

Heimilið hefur verið meira og minna símasambands- og netsambandslaust síðan og við erum búin að grátbiðja Vodafone um að fyrirgefa okkur svikin og leyfa okkur að ,,koma heim" aftur.

Ótrúlegustu skýringar gefa van-hive menn um orsakir, t.d. hafa þeir spurt hversu löng snúran úr ráternum sé og hversu gömul (þeir komu með hana sjálfir og stungu í samband). Ýmsu öðru hafa þeir fundið upp á til að kenna okkur um - flest ætlað heldur heimskara fólki en okkur. Reyndar hljómar þetta yfirleitt eins og þeir sjálfir trúi því sem þeir eru að segja, hversu fáránlegt sem það er. Mér líður stundum eins og í faldri myndavél, afsakið, hlerunarbúnaði, þegar ég spjalla við þessa menn. Verst er að hafa ekki fest þetta allt á blað, því þá væri komið efni í góða brandarabók.

Eina skýringin sem var líkleg var sú að þeir hefðu selt svo mörgum aðgang að þeir réðu ekki við þetta, en það var sagt í þeim tón að við ættum að vera rosalega glöð að vera hjá svona vinsælu fyrirtæki og bíða róleg í þær vikur sem tæki að koma okkur í stöðugt samband við umheiminn að nýju.

Hefðbundin heimilissímtöl hljóma hjá okkur eins og símtölin sem pabbi pantaði til Ísrael í gegnum símstöð á 7.áratug síðustu aldar og oft slitnar sambandið. Rosalega hentugt fyrir verslunareiganda! Tala nú ekki um vandamálið með posann... Bittinú!

Ef við fáum svo mikið sem eyri í reikning frá Hive, skulu þeir fá á baukinn. Þá mætir 1 stk friðarspillisliði í ham og 1 stk sporðdreki með aukaeitur í tungubroddi. Og hananú!

Stök lok og loklaus kör

Haldiði ekki að þetta sé bara að gera sig á eBay, betur en neitt annað sem ég hef reynt að koma út áður en ég fer til USA. Þegar ég keypti góðan lager hér um árið (svona oggulítið köttinn í sekknum, en vissi það ekki fyrr en síðar), lét seljandi fylgja frítt með nokkur stök lok og loklaus sykurkör og svoleiðis. Þetta var allt eitthvað ,,gamalt drasl" sem passaði ekki á neitt. Núnú, 2 árum og mikilli upplýsingu síðar, get ég selt þetta á bara nokkuð laglegu verði á eBay. Ég er auðvitað búin að rannsaka nákvæmlega hvað þetta er, hversu gamalt o.s.frv. en þetta kemur samt skemmtilega á óvart. Svona áður en allir fara að róta í skápum eftir stökum lokum ,,made in China", þá ber að tilkynna að laglegt verð er kannski $10.00-20.00, svo við erum ekkert að tala um ríkidæmi. Bara rosalega mikill gróði miðað við 0 í kostnað... Og svo voru þetta lok og kör frá hinu vandaða, virta og fjörgamla fyrirtæki Royal Copenhagen (en ekki eitthvað gamalt drasl)...

Það var dúndurstuð hjá Ömmu Ruth síðasta laugardag og fín sala. Hlakka til næsta laugardags, því fullt er af skemmtilegum munum í búðinni eftir Danmerkurtúrinn. Súkkulaðikönnur, tertuspaðar og ýmislegt annað sem alltaf er verið að spyrjast fyrir um. PLÖÖÖÖÖGGGGGGG.