2006-11-02

Hraunað yfir Hive

Gerði þau afdrifaríku mistök fyrir réttum 3 vikum að láta undan þrýstingi frá Strump og skrá mig hjá Hive til að fá miklu-meiri-hraða-fyrir-miklu-minni-pening.

Eða ekki.

Heimilið hefur verið meira og minna símasambands- og netsambandslaust síðan og við erum búin að grátbiðja Vodafone um að fyrirgefa okkur svikin og leyfa okkur að ,,koma heim" aftur.

Ótrúlegustu skýringar gefa van-hive menn um orsakir, t.d. hafa þeir spurt hversu löng snúran úr ráternum sé og hversu gömul (þeir komu með hana sjálfir og stungu í samband). Ýmsu öðru hafa þeir fundið upp á til að kenna okkur um - flest ætlað heldur heimskara fólki en okkur. Reyndar hljómar þetta yfirleitt eins og þeir sjálfir trúi því sem þeir eru að segja, hversu fáránlegt sem það er. Mér líður stundum eins og í faldri myndavél, afsakið, hlerunarbúnaði, þegar ég spjalla við þessa menn. Verst er að hafa ekki fest þetta allt á blað, því þá væri komið efni í góða brandarabók.

Eina skýringin sem var líkleg var sú að þeir hefðu selt svo mörgum aðgang að þeir réðu ekki við þetta, en það var sagt í þeim tón að við ættum að vera rosalega glöð að vera hjá svona vinsælu fyrirtæki og bíða róleg í þær vikur sem tæki að koma okkur í stöðugt samband við umheiminn að nýju.

Hefðbundin heimilissímtöl hljóma hjá okkur eins og símtölin sem pabbi pantaði til Ísrael í gegnum símstöð á 7.áratug síðustu aldar og oft slitnar sambandið. Rosalega hentugt fyrir verslunareiganda! Tala nú ekki um vandamálið með posann... Bittinú!

Ef við fáum svo mikið sem eyri í reikning frá Hive, skulu þeir fá á baukinn. Þá mætir 1 stk friðarspillisliði í ham og 1 stk sporðdreki með aukaeitur í tungubroddi. Og hananú!

1 Comments:

Blogger Elísabet said...

ja, hérna. og ég sem var að spá í að skipta um þjónustu...

fínt að fá svona reynslusögur svo maður lendi ekki í pikklesi:)

4/11/06 20:14  

Post a Comment

<< Home