2006-10-24

Helmingi meira að gera þegar betri helmingurinn er heima!

Svo heldur maður að þá geti maður dreift verkunum...

Jæja, þetta er allt skemmtilegt. Skulda víst ferðasögu frá Köben.

Dagur 1 (eða eiginlega dagur núll, því að bóndinn flýtti för og ég þar af leiðandi líka). Frábært að fara frá Keflavík rétt eftir hádegið - þvílíkt stressleysi og flugstöðin hálftóm! Náði í hina frúna í Kópavoginn og svo bara beinustu leið út á flugvöll. Í fríhöfninni náði ég í nýju gleraugun sem ég var búin að panta - svona líka ljómandi smart. Svo birgðum við okkur upp af snyrtivörum og fengum okkur hvítvínsglas. Um borð í vélinni tók ég veskið mitt upp og setti í vasann fyrir framan mig, svona ef ég skyldi kaupa mér rauðvín með matnum. Það kom sér svo heldur en ekki illa að brennivínsgenið í mér er frekar slappt, því rauðvínið keypti ég ekki og gleymdi svo veskinu í vasanum með litlum 4.500 dönskum krónum! Venjulega er maður nú ekki með svona fjárhæðir í beinhörðum með sér, á tímum kortanna, en þetta var ætlað í flóamarkaðsbrask fyrir Ömmu Ruth. Veskið hafði þar að auki verið tæmt af öllum bókasafns- og félagsskírteinum og ekkert til að auðkenna það mér, nema 2ja ára gömul mynd af Strumpi. Veskið hefur hvorki komið fram í Köben né hér heima og er víst óhætt að telja féð glatað mér. Ég vona bara að sá sem tók það hafi verið blásnauður námsmaður eða einstæð móðir...

Svona atvik fara víst saman í hópum og eru því tvö enn ótalin, en þau koma ekki fyrr en á degi 2.

Í Köben var smá bið eftir herramönnunum frá Afghanistan, svo við dömurnar skruppum yfir á Hilton til að næra okkur. Þar var boðið upp á hlaðborð sem okkur leist ágætlega á. Þegar við vorum búnar að borða kom reikningurinn og fannst okkur hann nú svona í hærra lagi fyrir hálfgerðan salatbar. Áttuðum okkur svo á því að annars staðar í salnum voru steikur og fínerí sem var innifalið en höfðu farið fram hjá okkur. Þar sem við vorum komnar með grænfóður og reyktan lax upp í kok og slepptum því bara. Það var akkúrat á þessari stundu sem peningahvarfið mikla uppgötvaðist. Mér vildi reyndar til happs að ég hafði tekið smávegis af peningum og sett í annað veski (aðallega af því að bunkinn var svo þykkur, ekkert til öryggis - því miður var veskið sem varð eftir í flugvélinni stærra og tók meira af seðlum). Einnig voru kortin vís, þannig að ég var ekki alveg lens.

Þannig fór það að þegar menn okkar birtust, var ég í taugahrúgu, hlaupandi um allan völl að leita að leiðum til að nálgast veskið.

Mér tókst nú samt að gleðjast yfir heimkomu herrans. Mikið var skrýtið hversu mikla virðingu og velþóknun fólk sýndi þeim þarna á flugvellinum (nokkrir Danir voru að koma líka). Reyndar rak einn upp undirskálaaugu og sagði: Íslendingar í einkennisbúning - eru Íslendingar nokkuð með her? Nei, sögðum við. Hvað eruð þið þá? Ekki her og ekki hér. Náunginn elti okkur út - bara svona ofurvenjulegur kurteis Dani - alveg gáttaður á þessu.

Þeir eru auðvitað í herbúningum þarna úti og á leiðinni heim til Evrópu. Á leiðinni heim eru þeir í venjulegum fötum. Á leiðinni út eru þeir í venjulegum fötum og fara svo inn á klósett til að skipta í Osló... Frekar spes...

Hvað sem öðru líður, þá eru þeir vissulega í einkennisbúningum við störf sín í Afghanistan og bera vopn sér til varnar, en það er nú svolítið langsótt að kalla 20-25 manns sem eru ráðnir í 3 mánuði her.

Jæja, bóndinn kallar á kvalitítæm. Framhald ferðasögu fljótlega.

3 Comments:

Blogger Kristin Bjorg said...

Rosleg óheppni er þetta með peningana! Eiginlega alveg nóg til að spilla góðri ferð. Vonandi hefur þú fengið móralskan stuðning....

25/10/06 19:47  
Blogger Hildigunnur said...

óxla pirrandi :(

25/10/06 20:33  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Já, ég fékk frábæran móralskan stuðning. Snorri sagði: meiddi sig einhver? Þetta eru bara peningar... Er það furða þótt ég elski hann?

29/10/06 18:00  

Post a Comment

<< Home