2006-10-30

Höfuðóreiða

Eða hauskaos. Ég og sála (kvenkyns sálfræðingurinn minn) komumst að þeirri niðurstöðu að ég væri svona nett rugluð af því að í höfði mínu ríkti stundum megn óreiða. Kaos hefur reyndar verið kallað ringulreið á íslensku en einhvern tímann sagði einhver mér eitthvað dónalegt því tengt og ég á erfitt með að nota orðið án þess að upp komi einhvers konar dónasena í höfði mér.

Óreiða ríkir oft í mínu heilabúi - alltaf að reyna að muna það sem ég gleymdi að skrifa niður, eða að gleyma að lesa það sem ég mundi eftir að skrifa niður. Og setja alls kyns óþarfa á má-ekki-gleyma lista sem eru bara til í höfðinu á mér.

Við tvenns konar aðstæður ríkir ekki óreiða:

A. Þegar ég er úti að ganga (og eitthvað eftir að göngu lýkur).
B. Þegar ég held jöfnum, nokkuð hægum, takti við allt sem ég geri. Þannig haga ég mér í vinnunni. Nú þarf ég bara að æfa mig að láta eins og ég sé í vinnunni heima hjá mér - ja svona að sumu leyti. Kannski ekki Lento eða Adagio (enda er sá taktur ekkert vinsæll í vinnunni), en svona Andante Moderato. Ekki Presto, eins og ég enda svo oft í. Það gengur bara hreint ekkert meira undan mér þannig og ég spana bara upp í mér einhvers konar heilahvirfilbyl.

Reyndar ríkir friður við nokkrar aðrar aðstæður, en þær fylgja yfirleitt ekki daglegu amstri, eins og liggjandi á ströndinni eða í nuddi eða í heitu baði. En þetta fellur auðvitað allt undir meðvitaðar slökunaraðgerðir.

Jæja, okkur hjónakornunum fannst 10.nóvember kannski fullseint, svo við fengum brottför til Florida breytt í 7.nóvember fyrir smáaur.

Þetta er auðvitað bara ógeðslega fyndið... Ef ég hlæ ekki að svona, þá leggst ég bara inn á geðdeild. Ætla frekar að hlæja.

7 Comments:

Blogger Elísabet said...

skemmtileg lýsing og húmorísk á líðan sem er kannski ekki alltaf svo þægileg.

gangi þér allt í haginn:o)

31/10/06 08:36  
Blogger Guðný Pálína said...

Datt inn á síðuna þína í gegnum Baunina og kolféll fyrir frábærum lýsingum á daglegu lífi 42ja ára konu með vefjagigt. Kem pottþétt til með að fylgjast með... :-)

1/11/06 11:42  
Blogger Guðný Pálína said...

O.k. sá að þetta hljómaði kannski hálf undarlega - en var sem sagt bara vel meint. Málið er að ég er sjálf mjög líklega með vefjagigt en hef bara aldrei farið til læknis og fengið formlega greiningu. Hem samt verið ómöguleg (með skárri tímabilum inn á milli) síðan 1999. Var búin að vera svo góð í júlí, ágúst og sept. að ég var hreinlega búin að gleyma að það væri nokkuð að mér. Svo sló stóri hrammur mig kylliflata í byrjun október og í þrjár vikur var ég hreinlega að drepast úr vöðvaverkjum, þreytu, þunglyndi og alls herjar slappleika. Er á uppleið núna, sem betur fer. Veðrið hefur líka ansi mikið að segja, raki og kuldi gerir illt mun verra.
Hm, sorrý, þetta átti nú ekki að verða heil ritgerð, en gangi þér alla vega vel í baráttunni við vefjagigtina!

1/11/06 11:48  
Blogger Kristín said...

Hlæið bara konur, hlæið!

1/11/06 20:35  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Gaman að skjá þig, Guðrún Pálína (nokkuð skyld þeirri sem var skólastýra í Kvennó???).

2/11/06 19:48  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Úúúps, Guðný Pálína (og örugglega ekkert skyld hinni).... hlæjum bara áfram... týpískt fyrir mig...

2/11/06 19:49  
Blogger Barbie Clinton said...

Iss, þoli ekki línufólk. Ekkert gaman nema það sé smá rússíbanafílíngur á þessu:)

9/11/06 21:45  

Post a Comment

<< Home