2006-12-30

Veislufár!

Fertugsafmæli frá 2-5 (Ömmu Ruth lokað óvanalega snemma í dag). Svo er fjörutíuogfimm ára brúðkaupsafmæli í kvöld hjá tengdó.

Er að spá í að vera í einhverju mjög teygjanlegu allan daginn svo ég geti fengið mér af öllum sortum... hehehe...

Fimmtán manns hér svo annað kvöld en ég kemst ákaflega vel frá því. Allir koma með eitthvað á kalda borðið! Ég legg til húsnæði og drykkjarföng (og smáköku- og konfektafganga). Bara brillíant!

2006-12-29

Og sjá - ég býð yður línk!

LOKSINS, LOKSINS er kominn linkur hér á Ömmu Ruth, efst til hægri á linkalistanum!

ÁSTARÞAKKIR, Hildigunnur.

Skoðið og látið freistast!

Viðbótarhamingja!

Snorri verður heima fram á 2. janúar! Megaæðislegafrábært!

Fórum í árlegt hanastél Utanríkisráðuneytis fyrir Friðargæsluliða og maka í gærkvöldi. Valgerður Sverrisdóttir bauð nú bara af sér þokkalegan þokka og hélt ræðulega ræðu (enda á ástkæra ylhýra...).

Fínt að bíta og brenna en fórum samt mörg (hátt í þrjátíu) þaðan á Rossopomodoro og fengum fínan mat og alveg frambærilega þjónustu þrátt fyrir að vera mjög mörg og alveg óvænt. Mistök urðu með minn rétt (ég get ekki borðað neitt laukkyns og tók það fram), en því var kippt snarlega í liðinn og ég fékk, bara örfáum mínútum síðar, alveg agalega gott humarpasta.

Bíóferð á eftir og svo bara áframhaldandi leti...

Hamingjujól

Já, mín kæru, Snorri komst heim fyrir jól. Mætti klukkan 22.00 á Þorláksmessukvöld og það fyrsta sem hann setti í hendurnar á mér voru 3 rúbínar! Þeir fóru svo í skoðun hjá Siggu og Timo í Hafnarfirði og þar komumst við að því að sá stærsti var mun meira virði en Snorri hafði borgað fyrir, þótt hinir smærri væru nú eiginlega frekar ómerkilegir. Hlakka til að fá hálsmen með 2ja karata rúbín, sem Timo horfði græðgislega á...!

Jólin voru svo auðvitað bara frábær í framhaldi af heimkomu Snorra - burtséð frá eðalsteinum! Huggulegheit hér á aðfangadagskvöld með mömmu og systur minni og svo kvöldkaffi hjá mágkonu minni og svila.

Endurtekið efni frá fyrri jólum í framhaldinu, eins og vera ber (snúast ekki jólin hrikalega mikið um hefðir hjá okkur?) Sænsk jólaskinka hjá tengdó á jóladag og eftirmiðdagsboð hjá pabba og spúsu hans á 2. í jólum.

Leti mikil þessa dagana (samkvæmt ofangreindum venjum og hefðum). Er búin að púsla tvö púsluspil, lesa svolítið, sofa hrikalega mikið og borða mátulega mikið.

Strumpur varð, svona í fyrstu, heldur vonsvikinn með pakkana en ég leiddi honum fyrir sjónir að óskalistinn hefði verið heldur hátt spenntur og hann er búinn að taka gleði sína á ný. Hann er líka svoldið mikill únglíngur þessa dagana og skapið í nettum sveiflum.

2006-12-22

SMS frá Tyrklandi og símtal frá Noregi

Um kaffileytið fékk ég SMS: er i tirklandi (minn er svoldið bleslindur, eða a.m.k. britlindur).
Áðan fékk ég símtal: Hæ, er að ná í farangurinn. Við erum komnir til Noregs.

Látum nú veðrið sleppa þeim alla leið til Íslands á morgun!

Undarlegur aðfari jóla. En hlutirnir hafa tilhneigingu til að reddast!

Gjaldþrot?

Í Ömmu Ruth komu fjórir í gær og þrír í dag. Allamalla! Búin að auglýsa, eins og efni standa til, bera út auglýsingu, senda tölvupósta um allt og allt kemur fyrir ekki. Er það nú jólatraffík! Veit að veðrið er vont, en veit líka að allt er fast í umferðinni, þannig að fólk er greinilega samt á ferðinni.

Ef morgundagurinn gerir sig ekki sæmilega, er ég í vondum málum. Nýbúin að kaupa tuttugu kassa af góssi og auðvitað áttu jólin að borga það. Þeir komu reyndar allt of seint. Vildi að blessuð gamla konan sem seldi mér hefði talað við mig fyrir mánuði. Erfitt að fá svona inn rúmri viku fyrir jól...

Fingur í kross (og allt sem krossast getur). M.a.s. rangeygð!

2006-12-20

Arg, væl, snökt, grrrr

Snorri hringdi áðan. Pegasus vélin sem rúntar milli Skandinavíu og Kabúl er föst í Istanbúl vegna veðurs og allar ferðir vikunnar frestast um einn dag. Ef Guð lofar, verður það bara einn. Síðustu fréttir eru því þær að Snorri kemur ekki fyrr en á Þorláksmessu. Vonandi. Hringdi hingað og þangað til að redda öllu sem hann ætlaði að gera á Þorláksmessu, því ég er föst í búðinni. Hann ætlaði reyndar sjálfur að hringja í pabba sinn og biðja hann að ná í jólagjöfina mína... og jólatréð, sem búið er að taka frá fyrir okkur í Flugbjörgunarsveitinni.

Krappóla á myglaðri brauðsneið með súrri undanrennu!!!

Og svo er ég með magapest... bööööööö

2006-12-19

Bóndi kemur heim um jólin!

Hvort sem bænir ykkar dugðu eða annað kom til, sáu Nojararnir frændur okkar aumur á þeim þremur skitnu Íslingum sem eftir hefðu orðið í Fjarkistan um jólin og tróðu þeim með sér n.k. fimmtudag til Osló. Þaðan kemur minn heittelskaði svo á föstudaginn við húrrandi hamingju hér.

Var í jarðarför í dag hjá aldraðri föðusystur Snorra og setti að mér grát mikinn þegar ég var að ganga út úr kirkjunni. Alveg toppurinn á kjánahrollnum - þekkti hana varla og hún gömul og lífsþreytt. Er bara með sálina utan á mér þessa dagana og varla má segja bö án þess að ég sé í það minnsta með ekka. Strumpur á leið á jólaball og á enga hreina peysu, því ég hef verið í tætlum hérna undanfarið, og ég er með móral ársins yfir því hvað ég er ómöguleg mamma.

Jiii - held það sé tími á faðm bóndans. Verst að hafa hann ekki nema fjóra daga. Dugir mér varla fram í byrjun mars ef ég ætla að vera svona óttalega lin áfram

Ánægjulegir hlutir gerast nú samt líka (gudskelov). Baun kom í búðina í gær og skoðaði margt og fékk skemmtilegar jólagjafir fyrir ýmsa hér, m.a. fyrir sjálfa sig, fyrir ákaflega sanngjarnan prís. Við spjölluðum og hlógum og á eftir sagði Strumpur: hvað var svona rosalega fyndið - þið hlóguð og hlóguð? Ég tók bara ekkert eftir því að við hlægjum svona mikið, en það var samt mjög gaman að fá Baun.

Kannski koma fleiri Bloggvinir? Lifi í voninni. Opið næst á fimmtudaginn 10-20!

Hei - kíkið á smáauglýsingarnar mínar á mbl.is, undir antik...

2006-12-16

Heimkoma bóndans í hættu

Hér er legið á bæn. Einhver (veit reyndar hver - og veit hvaða leið börnin hans fara í skólann...) gleymdi að græja heimferðina fyrir friðargæsluliðana svo þeir gætu notið jóla með nánustu. Ferðin til Íslands klikkar reyndar ekki, Flugleiðir eru samstarfsfúsir og næs (vóóóó...) en aðalhöfuðverkurinn er að komast frá Kabúl. Snorri og fleiri eru búnir að vera pungsveittir að troða sínum mönnum inn í Pegasus vélar til Noregs og Danmerkur og nú er svo komið að aðeins hann og tveir aðrir eru ómunstraðir enn. Þeir eiga reyndar pantað í gegnum Dubai (Kabúl-Dubai-London-Keflavík) á morgun, en vilja frekar treysta á að geta setið ofan á einhverjum kassa, eða hver í fanginu á öðrum, í Pegganum sem fer til Noregs á miðvikudaginn. Ástæðan er sú að frá Kabúl yrðu þeir að fljúga með afganska flugfélaginu Ariana, sem í daglegu tali er kallað Scariana. Flugmennirnir eru fínir og ekki mikil slysasaga, en allir vita að vélarnar þeirra hanga bara saman á Allah áköllum flugmanna og farþega, og því lengur sem þeir fljúga slysalaust, þeim mun styttra er í stóra slysið.

Biðjið með mér, bloggvinir fagrir, og ákallið hvert það yfir(náttúrulega)vald sem ykkur hentar.

Tekið upp úr tuttugu kössum

Já, börnelille. Keypti af aldraðri, lasinni konu út í bæ heila tuttugu kassa af antik og eldri munum sem hún er búin að safna síðan hún var ung, hér og þar um heiminn. Hér höfum við tengdamamma (gvuð blessana) unnið sleitulaust við að handþvo, pússa, yfirfara, verðmerkja, mynda, setja á heimasíðu í hátt í þrjú dægur og enn er a.m.k. helmingurinn eftir. Flóran í Ömmu Ruth er í ofvexti og plássið af skornum skammti. Nú verða bara allir að mæta í stresslausu krúttbúðina og finna litla sæta gjöf handa einhverjum kærum.

Upp úr kössunum komu m.a. bollatvennur, bollaþrennur, eggjabikarar, kaffikönnur, kertastjakar, konfektskálar, kristalsmunir, matardiskar, matarföt, mánaðarbollar, mánaðarkrúsir, mokkakönnur, pressuglersmunir, rjómakönnur, skálar á fæti, skrautdiskar, skrautskálar, smjörkönnur, sósukönnur, súkkulaðikönnur, súpudiskar, sykurkör, tarínur, tekatlar, tepokadiskar, vasar og öskubakkar.

Takið eftir: þetta var í stafrófsröð.

Og svo margt fleira, eins og mokkakanna með innbyggðri spiladós og últrasett reykingamannsins/kvendisins (öskubakki, sígarettustandur og eldspýtustandur - allt með sama rókókóflúrinu...)

Opið á morgun frá 10-18. Hint, hint, plögg, plögg

2006-12-15

Bloggvinir fagrir!

Er enn á lífi! Jamm. Hef hvorki bloggað né lesið annarra mannarra blogg svo dögum skiptir. Amma Ruth og Vogaskóli hafa átt allan minn tíma og gott betur.

Var að taka upp úr 20 kössum af dýrindis munum, þvo, sortera, verðmerkja og stilla upp. Virkilega vert að kíkja. Jólagjafir frá 300 kall!

Nei, svona án gríns, þá væri voða gaman að sjá bloggvini í stresslausu krúttbúðinni og ég get oftast fundið eitthvað gjafavert, nema kannski helst fyrir karlmenn undir tvítugu. Opnunartímar eru ríflegir til jóla (sjá www.ammaruth.is) og svo má alltaf hringja og fá að koma utan þeirra, ef ég er heima. Það er kosturinn við svona kjallarabúð í heimahúsi...

Blogga meira bráðum.

2006-12-06

Mögnuð sjón

Sáuði norðurljósin áðan? Það eru sko forréttindi að búa á Íslandi!!!