2006-02-28

Annar hvor

Sko annar hvor dagur... Síðasti dagur mánaðar í dag. Styttist í heimkomu Snorra (júbbí) og fermingu (júbbí - held ég).

Árshátið 101hotel heppnaðist með ágætum á sunnudaginn. Gargaði úr mér röddina sem fyrirliði annars ,,liðsins". Við sömdum dans, slagorð og nafn á hópinn (svolítið Survivor fílingur...). Allt fór ljómandi vel fram á Indriðastöðum í Skorradal. Alveg hægt að mæla með þeim í hópsamkomur. Átti reyndar erfitt með að slaka á og taka þátt í gamninu fyrir stjórnseminni í sjálfri mér. Alltaf að skipta mér af og passa að allir séu með og skilji allt. Ekki svosem vanþörf á með starfsfólk frá Portúgal, Þýskalandi, Frakklandi, Tælandi, Serbíu og Sýrlandi... (þessi frá Fílabeinsströndinni, sú finnska, sú ameríska, sá ungverski, sá marokkóski og sá spánski voru ekki með). Svo sagði yfirstrumpurinn á Indriðastöðum að þetta væri bara móðureðlið í mér. Hemm. Ég hallast frekar að stjórnsemi og skammast mín yfirleitt ekkert fyrir hana, nema kannski þegar ég á að vera að skemmta mér!

Vetrarfrí hjá Ragga og co í gær. Skelltum okkur á Nanny McPhee. Hefði kannski ekki verið efst á blaði hjá manni, en Raggi og Hörður áttu boðsmiða. Myndin var bara alveg ágæt. Skemmtileg fyrir krakka og fullorðnir gátu alveg hlegið líka. Karlkyns unglingum fannst hún hins vegar frekar döpur.

Nú bíð ég eftir ljósmyndara frá Mogganum. Af mér verður mynd og saga hlutar sem mér þykir vænt um í Mogganum fljótlega, undir ,,Hlutur með sögu". Búið er að taka mynd af skápnum sem ég vildi segja frá (og mér), en svo var forláta (forljóta - að sumra mati) skál ofan á honum, sem þeir vilja fá nánari mynd af. Vona að allir sem sjá pistilinn reki augun í AMMA RUTH og streymi í búðina. haha.

Langur vinnudagur framundan, eins og alla þriðjudaga. Saltkjöt og baunir í kvöld hjá tengdó. Mikið er dýrlegt að eiga gott tengdafólk! Efast um að margir séu betur staddir en ég að því leyti.

Bið að heilsa ykkur.

2006-02-26

Illa byrjar það

Noh, datt bara heill dagur út! Það má nú sennilega. Ég hef trú á því að þetta verði svona hipsum hapsum hjá mér.

Food and Fun var einmitt það. Fínt kvöld á Einari Ben. Gestakokkurinn heilsaði m.a.s. upp á. Hún er bandarísk og heitir Ris (borið fram Riss) en ekki man ég eftirnafnið. Staðurinn var alveg pakkaður. Við Alex nutum matarins og spjölluðum um heima og geima. Gaman að hitta kollega utan vinnu - maður kemst að ýmsu skemmtilegu um þá. Eftir matinn ætluðum við annað í kaffi, en þá var allur laukurinn sem ég hafði innbyrt búin að kveikja á óþolsgenunum og ég dreif mig heim.

Ég hélt að dagurinn yrði dauður í búðinni í gær. Ekkert að gerast. Svo datt hér inn eitthvað af fólki milli þrjú og fjögur og þetta endaði með að skila fáeinum krónum í kassann. Lengi lifi Amma Ruth! Munið að ANTIK FER ALDREI ÚR TÍSKU!

Eftir lokun sótti ég fötin á strákana (Ragga og Hörð). Raggi mátaði svo buxur, vesti og jakka eftir kvöldmat - hélt tískusýningu fyrir okkur ömmu hans og frænku. Þessi líka glerfínu föt! Kasmírull, skraddarasaumað og ekkert smá flott. Svört með örfínum teinum. Hann var svo FLOTTUR!

Með fötunum fylgdu tvö útsaumuð kasmírsjöl fyrir frúna á heimilinu (aka mig). Ofboðslega falleg. Verður hægt að kaupa þau hjá okkur fyrir slikk í lok apríl...

Yatsí er nýuppgrafinn leikur hjá okkur. Í flensuvolæði síðustu viku hjá Ragga, keypti ég yatsíblokk og teninga og svo er bara spilað. En man einhver sem þetta les fyrir hvað maður fær verðlaun í efri partinum og hversu há þau eru?

Tvær Sudoku (er að minnka skammtinn) fyrir svefninn og nokkrar síður í Skítadjobb eftir Ævar Örn Jósepsson. Ágætis afþreying.

Verið góð hvert við annað.
Bestertester

2006-02-24

Hér kem ég! Food and Fun í kvöld með Alex yfirþjóni á 101. Grasekkillinn og grasekkjan tóku höndum saman um að prófa Einar Ben og þann gómsæta matseðil sem boðið er upp á í kvöld... nammsilibaba.

Fór í hádegismat til Hildigunnar, sem kenndi mér að blogga - TAKK, TAKK! Semsagt, eldað ofan í mig tvisvar á dag. Fékk ferlega gott heitt spínatsalat hjá Hildigunni - ekki að spyrja að því.

Er uppfull af því sem mig langar að skrifa en er líka að tala við Snorra á MSN, þrátt fyrir frekar hæggenga tengingu til Fjarkistan. Hann var að senda heim fermingarfötin á Ragga (skraddarasaumuð - vesti, buxur, jakki og frakki). Fáum að sjá þau á morgun. Bíðum spennt.

Kann ekkert á þetta fermingardæmi. Hvenær er tímabært að panta ljósmyndatöku? Senda boðskort? Mér finnst einhvern veginn enn vera nægur tími til stefnu, en tíminn hefur tilhneigingu til að líða frekar hratt, hratt...

Jæja, prófa aftur á morgun að blogga. Þetta gæti orðið fjarska gaman...