2007-01-29

Afmælisboðin tvö afstaðin

Og mikið var nú gaman. Mamma ætti bara að verða áttræð aftur fljótlega! Öll barnabörn foreldra hennar voru saman komin á sama tímapunkti og -stað TVISVAR á einum sólarhring. Slíkt hefur ekki gerst síðan einhvern tímann um jól fyrir 35-40 árum síðan. Einn frændinn heldur heim á leið til Manchester í dag, ein frænkan til Svartaskógar á fimmtudaginn, en sá frændinn sem hefur aðsetur í Svíþjóð, ætlar að vinna eitthvað hérlendis áður en hann heldur aftur til fjölskyldu sinnar þar. Fátt um fína vinnudrætti á hans slóðum í Svíaríki.

Fullt að gera í Ömmu Ruth á laugardaginn og því miður náði ég ekki að fara á tónleikana hans pabba. Varð að hvíla mig fyrir kvöldið, því ég var við það að missa mál af þreytu. Allan daginn í gær stóð ég svo í kaffiuppáhellingi, uppvaski og áfyllingu á kaffibrauði hjá mömmu. Hildigunnur kannast við að ég er bara nokkuð góð í slíku. Enda var ég komin í náttfötin um átta-leytið í gærkvöldi.

Ætla bara að kíkja í vinnuna í dag og vona að ekkert sér þar fyrir mig að gera. Í vinnunni hjá mér eru nefnilega ekki margir fastir liðir, heldur verkefni sem dúkka upp. Stundum er því allt á haus og stundum afskaplega þægilega rólegt. Ég er hins vegar búin að komast að því að því minna sem ég læt sjá mig, þeim mun minna fellur í mitt skaut af löðurmannlegum verkefnum sem aðrir, á lægri launum en ég, gætu innt af hendi með bundið fyrir augun. Það er því ákveðinn kostur fyrir fyrirtækið að ég komi ekki of mikið, en kannski ekki alveg eins gott fyrir veskið mitt. Ég bara get ekki hugsað mér að hanga þar daginn út og inn og dunda mér í einhverju föndri, bara til að fá feitari útborgun. Þá vil ég frekar fara í göngutúr, sauma, blogga eða klippa á mér táneglurnar.

Ætla nú samt hér með í sturtu og svo í heimsókn í vinnuna. Geymi sem mestan orkuskammt fyrir læknisheimsóknina seinni partinn, svo ég geti heimtað lausnir við geðrænum vandræðum.

5 Comments:

Blogger Eyja said...

Ég skimaði eftir þér á tónleikunum en sá þig ekki, þarna er komin skýringin á því. Ég sá auðvitað pabba þinn og svo þóttist ég sjá syni þínum bregða fyrir að tónleikum loknum.

29/1/07 11:34  
Anonymous Anonymous said...

Ég mæli eindregið með Flórída ferð - og í þetta skiptið þarftu sko ekki að sofa á gólfinu því að við erum komin með fínasta rúm (queen size) og mublur í gestaherbergið!
Mér veitir heldur ekkert af að fá reynda manneskju í kattamálum til að temja villinginn minn.
Ég er líka byrjuð að æfa aftur eftir blóðtappann, þannig að létt skokk um nágrennið er á planinu, ásamt sundi og hjólreiðum. Búin að finna þennan fína stíg um Palm Coast með bekkjum og fíneríi sem hentar ákaflega vel til göngu eða hjólreiða ferða, þannig að pakkaðu hjólahjálminum!

29/1/07 14:53  
Blogger Syngibjörg said...

Er það ekki brill að geta stjórnað vinnunni sinni? mikið ertu heppin.
Og pakkaðu svo hjólahjálminum og taktu næsta flug til Florida, getur ekki klikkað.

29/1/07 23:32  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Gaaaad! Nú verð ég allt í einu alveg óð í Flórída. Jeminneini. Nema að það er svolítið flókið að púsla þessu saman. Sko Raggi fer til Frakklands 24. febrúar og Snorri kemur til landsins 1. mars. Það er of stuttur tími. Ég vil síður fara áður en Raggi fer, eða vera úti þegar Snorri kemur. Humm. Kannski ég geti vélað Snorra til að koma bara út til mín...

30/1/07 13:31  
Blogger Hildigunnur said...

Já, Ester er algjör meistari í veislustússi, það votta ég með glöðu geði :-D

31/1/07 15:12  

Post a Comment

<< Home