2007-01-10

Fjúkkett!

Komst ekki inn á bloggið mitt í nokkra daga. Hélt ég þyrfti að kalla út Hjálparsveit tækniheftra bloggara. Svo lagaðist þetta bara af sjálfu sér.

Var að hlýða Strumpi yfir, fyrir íslenskupróf. Hér varð heilmikið debat um persónulegar og ópersónulegar sagnir (og hvernig þær greinast hvur frá annarri). Tvisvar var hringt í kennarann og einu sinni í mjög fróðan frænda. Strumpur skilur þetta núna. Ekki ég. Enda kenndi ég ensku. Verð alltaf svolítið stressuð þegar hann biður um hjálp fyrir íslenskupróf. Eina fagið sem ég get ekki hugsað mér að kenna, því ég kann ekki nóg. Nja, kannski ekki upplýsingatækni eða íþróttir heldur...

Annars er vikan bara búin að vera drulluerfið! Og hananú! Þoli ákaflega illa þennan fimbulkulda. Er með bæði andlega og líkamlega verki. Panódíl hjálpar þeim líkamlegu en þeir andlegu brjótast aðallega út í tilfinningunni um að allir séu FÍFL! Þoli ekki meira en fjóra tíma í vinnunni áður en skrýmslið inni í mér vill fara að segja eitthvað eitrað við einhvern. Sem á það, NB, oftast skilið, en það skilar sér samt ekki í neinni andfíflu fyrir viðkomandi.

Þið sem hafið skjéð mig (þátíð af að skjá) í einhvern tíma munið kannski eftir köldum kalkún á svefnlyfin hér í haust. Nú er það kaldur kalkúnn á þunglyndislyfin, sem ég er búin að taka í fimm ár. Ákveðnar, mjög áríðandi, ástæður fyrir því. En mikið djö..... er þetta erfitt. ÆTLA að þrauka.

Verð heima í andlegri og líkamlegri hvíld á morgun og næ þess vegna að fara aftur til vinnu á föstudaginn. Vonandi.

Er farin að sofa í náttfötum, flíspeysu, varmasokkum, með risa-hitapoka og tvær sængur. Og hroll.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home