2007-01-15

Geðsveiflur og annað gotterí

Bíð nú í miklum geðsveiflum eftir miðvikudegi, til að vita hvort kannski-vondu fréttirnar frá síðasta fimmtudegi reynist á rökum reistar.

Á laugardag var fullt að gera á öðrum í útsölu hjá Ömmu Ruth, en geðið var þannig að ég næstum bölvaði í hvert sinn sem einhver vogaði sér hér inn. Spilaði þar stóra rullu einnig uppgjör mikið við únglínginn, sem hefur gerst uppvís að svikum varðandi samninga um takmörkun tölvunotkunar, ásamt minniháttar slugsi varðandi umgengni o.fl. Það mál var svo útkljáð um kvöldið með predikun, tiltekinni refsingu og nánum fyrirmælum um hegðun í náinni framtíð. Únglíngurinn tók þessu nú bara eins og maður og ætlar að taka út sína refsingu möglunarlaust. Og vonandi halda sig á mottunni...

Í gær var líðanin skárri. Mér tókst næstum því að sannfæra sjálfa mig um að þetta væri allt saman óttaleg vænissýki. En ekki alveg. Haddi og Ella, besta-vinafólk, björguðu deginum með því að draga mig á kaffi París í rosalega góðan latte og rosalega miðlungs ostaköku. Og rosalega skemmtilegan félagsskap.

Bóndinn hringir nú næstum því daglega frá Fjarkistan til að veita spúsunni andlegan stuðning. Ekki veitir af.

Er komin í náttföt og slopp þótt klukkan sé ekki einu sinni orðin 18.00 og er gríðarlega fegin að hafa eldað Lasagna í gærkvöldi, því þá má hita upp afganga í kvöld. Hitapokinn er hitaður mörgum sinnum á kveldi, en allt kemur fyrir ekki. Mér verður bara EKKI heitt. Það er ömurlegt að eyða öllum kvöldum með glamrandi tennur. Svo er hljóðið svo pirrandi...

Þetta er ekkert líf - alla veganna í dag. Sýnist á færslunni að það sé annar hvor dagur sem er svona fúll. Hlakka til á morgun. Hey! Tókuð þið eftir? Ég HLAKKA til. Þá er ekki öll von úti enn.

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

æææ, ljótt að heyra.

farðu nú vel með þig, mér finnst alltaf best að hreyfa mig ef mér verður svona kalt - út í röskan göngutúr, þá hlýnar manni svo vel. en það er auðvitað ekki alltaf hægt að rjúka út og þramma.

sendi þér góðar kveðjur og hlýja strauma

15/1/07 18:35  
Blogger Syngibjörg said...

Ég hef tekið á það ráð að senda mínu þunglyndi langt nef, fá útrás í hreyfingu og mér líður strax betur. Því skil ég þig svo vel mín kæra og sendi þér allar góðar kveðjur hér úr faðmi fjallanna.

15/1/07 22:15  
Blogger Hildigunnur said...

ussussuss. Heyri í þér fljótlega.

Sýnist geta verið að við þurfum að henda inn word verification code, svona miðað við skemmtilega fyrsta kommentið hér...

15/1/07 22:18  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Alveg ENDILEGA, Hildigunnur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ svona spam á bloggið mitt. Get alveg lifað án þess.

En, eins og ég var að vona, er dagurinn í dag betri! Nayiana, mín kæra vinkona og þrifnaðarforkur par excellence, er hér að pússa allt og mér líður alltaf svo agalega vel þegar húsið er hreint og strokið. Svo er ég bara í fríi í dag og er að sinna alls kyns snatti og snikkeríi. Ætla svo í langan labbitúr á eftir.

16/1/07 11:12  

Post a Comment

<< Home