2006-08-29

Margt umleikis

svona á haustdögum. Nú verður maður víst að telja haustið komið í lok ágúst - miðast það ekki svona við fyrstu skóladagana? Strumpur kominn á fullt í 9.bekk. Þetta stækkar...

Jæja, bloggdólgurinn dró í land og 101 hotel fær uppreisn æru. Gott mál.

Tengdó kemur að tína ber í kvöld - hér svignar sólberjarunninn og annar rifsberjarunninn er bústinn og flottur líka. Hinn er hins vegar hrikalega ræfilslegur. Skrýtið. Sennilega ekki sama kvæni. Ég á von á að tengdó tíni ekki allt, sérstaklega ekki af sólberjum. Við borðum sáralítið af sultu hér á heimilinu, en mér þætti bráðsnjallt að búa til sólberjasaft. Kann einhver uppskrift að slíku?

Svo verða settar upp nýjar rúllugardínur hjá strumpi og í sjónvarpsherbergið, sem fékk andlitslyftingu síðasta vetur, en alltaf átti eftir að finna myrkvun fyrir gluggann, svo hægt sé að horfa á imbann á sumarkvöldum. Fór sko niður í Z-brautir og gluggatjöld í síðustu viku með gömlu rúllugardínurnar úr herbergi strumps og pantaði eitt sett af nýjum. Fór svo heim og mældi fyrir sjónvarpsherbergisglugganum (vá, flott orð í hengimann) og hringdi inn málin. Var sérstaklega búin að höggva eftir því í rúllugardínusýnishornarekkanum (vá, VÁ) að breiddarmál skildu vera stíf. Mældi upp á 71,5 cm í breidd. Þegar ég svo náði í gardínurnar, sá ég miða á kassanum sem á stóð að breiddarmál rúllugardína skyldu vera stíf UPP Á MILLIMETER. Úppps. Ég var ekki svo nákvæm. Fór heim og þóttist viss að nú hefði ég hlaupið á mig, en viti menn! Gardínan smellpassar! Nú segi ég bara eins og Kristín frænka mín Huber í Þýskalandi: Ich bin ein Glückskind! Sem útleggst fyrir Snorra (því hann er ekki þýskumælandi): Ég er lukkubarn.

Nú er byrjað að elda aftur hér á kvöldin - ekki dugir að reyta einungis snarl í stækkandi strump. Þetta er heldur flóknara svona mjólkurvöru-, lauk-, sykur- og fisklaust, en hefst samt. Ég svindla eilítið og slepp oftast fyrir horn. T.d. er sykur í flestum góðum austurlenskum sósum (og eiginlega öllum tilbúnum sósum), en ég borða þá bara lítið. Verra er með innihaldslýsingar þar sem stendur bara: krydd. Þá má gera ráð fyrir því að í því sé annað hvort laukur eða hvítlaukur, nema hvort tveggja sé. Það sleppur ekki eins vel í mallan á mér eins og örlítil sykursynd. Þetta lærist og er eiginlega svolítið spennandi að prófa sig áfram með svona mörgum hindrunum. Ég hef alltaf verið svolítið fyrir svona tsjallens. Ætla að reyna að útbúa pastasalat í kvöld með kjúllaafgöngum, tómötum, kóríander, maís og austurlenskri sósu

Fyllist nú áhuga á að kíkja í matreiðslubækur og athuga hvað hægt sé að útfæra mér í hag. Skjáumst síðar.

2006-08-27

Allt á fullu

allstaðar! Í gær var útimarkaðurinn og gekk bara ljómandi vel, þrátt fyrir eina hellidembu. Þá var nú gott að vera með vörur sem skemmast ekki í rigningu!

Svo skelltum við Raggi okkur í bíó að sjá sjóræningjana, ásamt systkinum mínum, Bergljótu og Davíð. Hin besta skemmtan.

Í dag átti svo ekki að gera neitt. Haha. Fór að vinna og tók strumpinn með. Hann er nú búinn að læra að strauja servíettur, setja í þvottavélar, þurrka þvott, brjóta saman, tæma línlyftu, telja lín o.m.fl. Stóð sig eins og hetja og er stoltur að geta mögulega fengið að vinna þarna af og til.

Frétti svo að einhver hefði bloggað ljótt gegn 101 hotel vegna uppákomu síðasta fimmtudag. Var búin að heyra af henni frá starfsfólki og las svo bloggið. Ég var auðvitað ekki þarna, en er búin að heyra frá starfsfólki og gestum, sem eru ekki alveg á sama máli og bloggarinn. Verst er að hann er einhver háttsettur Moggamaður, sem er búinn að fá sína kreðsa til að hunsa 101. Málið var að hópnum var vísað út vegna drykkjuláta, truflana við aðra gesti, hávaða og uppsölur utan salernis, fyrir utan náttúrulega ruddaskap við starfsfólk. Alveg er það ótrúlegt hversu auðvelt er fyrir fólk að tala um ruddalegt starfsfólk á veitingahúsum, en aldrei fær slíkt starfsfólk neinn vettvang til að tala um alla viðskiptavinina sem sýna því dónaskap. Rétt er það hjá manninum að sumt starfsfólk þetta kvöld var útlent, en allt talar það íslensku utan einn - sem ekkert kom nálægt þessari uppákomu. Íslenskir veitingastaðir, og reyndar mörg önnur fyrirtæki og stofnanir, ganga ekki án þessa starfsfólks, en sífellt má það heyra helv... útlendingar! Fá eru orðin veitingahúsin í Reykjavík þar sem einhver starfsmaður talar íslensku. Við höfum þá stefnu að á hverri vakt sé a.m.k. einn íslendingur og þeir sem þjóna til borðs eru allir færir um að tala íslensku, þó það komi fyrir að þeir beiti enskunni, sérstaklega ef að þeim er vegið og þeir vilja ekki misskiljast.

Jæja, ég var ekki á staðnum, en er búin að heyra frásagnir frá nógu mörgum, sem ekki voru í glasi, bæði starfsfólki og gestum, til að mynda mér skoðun. Ég hef líka unnið nógu oft á kvöldin til að vita hvernig svona uppákomur geta verið og hversu starfsfólkið er oft berskjaldað fyrir "fyrirmönnum" sem haga sér dólgslega.

2006-08-24

Bjútífúl dagur

Tengdó voru með bústað rétt fyrir neðan Bifröst og þangað skruppum við mútter í dag. Fórum í langan göngutúr fyrir ofan Hreðavatn og týndum upp í okkur ræfilsleg bláber og pattaraleg krækiber. Aldeilis nóg er þar líka af sveppum - alveg í haugum! Kann bara ekkert á þá og langar ekkert í þá smjörlausa...

Svo grilluðum við og ég fór í heita pottinn - alveg dýrð! Síminn minn varð þar að auki batteríslaus, svo ég var alveg laus við allt kvabb. Humm... gleyma oftar að hlaða símann? Mar' spyr sig...

Heima fyrir er allt í drasli - þegar maður er alltaf að vinna og engin fjölskylda, þá er maður heldur minna að hræra í skítnum. Verð víst að vinna bót á því fljótlega. Strumpur kemur á morgun, skólinn byrjaður og maður verður víst að taka upp meiri reglusemi í húshaldinu aftur - fara að elda og allt. Já, vel á minnst: Ástarþakkir, Hildigunnur, fyrir alveg haug af góðum uppskriftum. Þurfti reyndar að taka nokkrar út vegna hvítlauks og karrí (alltaf laukur í karrí) en eftir standa nokkrar vel spennandi, aðallega kjúllauppskriftir. Það er í góðu lagi, kjúlli er vinsæll hér.

Úff, ég er að horfa í kringum mig. Hvernig getur orðið til svona mikið drasl þegar maður er aldrei heima hjá sér? Ekki er hægt að kenna Tobiasi ræflinum um, því hann er í meira lagi snyrtilegur. Aha: Matti köttur!!! Sóðinn sá 'arna!

2006-08-23

Meinlætamataræði

Til að vinna nú bug í eitt skipti fyrir öll á langvarandi innantökum (sem staðið hafa meira og minna síðan ég hætti á brjósti...), hef ég nú loksins fundið hvað það er sem ég má ekki mér til munns leggja:

Mjólk og mjólkurvörur, allan lauk (lauk, hvítlauk, skallottulauk, graslauk, púrrulauk, vorlauk o.s.frv), sykur, kaffi og fisk (a.m.k. þorsk og ýsu), msg (sem ég kalla oftast óvart gsm).

Eftir er brauð (já, ekkert geróþol!), pasta, hrísgrjón, kartöflur, grænmeti (utan lauks), ávextir, kjöt, hnetur, fræ, egg, sojavörur.

Allt í lagi ef maður ætlar ekkert að elda af viti, en boring til lengdar. Nú skora ég á Hildigunni matgæðing og alla hennar kreðsa að gauka að mér uppskriftum við hæfi (þó eilítið þurfi kannski að laga þær til).

Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina... nammsílíbaba

Robbossla dulleg í dag

Eða rosalega dugleg í dag. Þeyttist út og suður bæði fyrir hótelið, búðina og heimilið. Látum okkur sjá: Z-brautir og gluggatjöld, Tollpóststofan (uppi á Höfða), Rekstarvörur, Tanni, 101 hotel, Skattstjórinn í Reykjavík, Ríkisskattstjóri, IKEA, Fríða Frænka, Landsbankinn, Sorpa og öll íbúðarhús í Sæviðarsundinu (og þau eru sko fleiri en 100!)

Geri aðrir betur!

Hafði heilmikið upp úr krafsinu en ekki alls staðar árangur sem erfiði (Skattmann, t.d.). Var að reyna að fá skattkort fyrir stúlku sem vann á hótelinu í júlí og hluta af ágúst. Hún er nú farin aftur til Svíþjóðar, síns heimalands, en kennitalan hennar var loks að berast. Nú þarf að útvega skattkort, svo hægt sé að greiða stúlkunni laun, opna fyrir hana bankareikning o.s.frv. Kerfið hér virkar nebbla sona: Fyrst kemur sárasaklaus úgglendíngur til Íslands, þar sem nóga vinnu er að fá (en ekkert húsnæði, takið eftir). Allir vilja ólmir ráða hann í vinnu, gjarnan svart. Úgglendíngurinn er grandvar og ræður sig í löglega vinnu (t.d. hjá 101 hotel). Hann þarf auðvitað að fá kennitölu. Til þess að fá hana, þarf hann að hafa vinnu. 101 hotel stimplar alla pappíra og úgglendíngur labbar upp á Þjóðskrá. Tæpum 2 mánuðum síðar er hann enn ekki kominn með kennitölu, þar sem það er sumar og hver vill vinna á Þjóðskrá? Úgglendíngur er búinn með sumarfríið sitt og fer heim. Úgglendíngur ekki búinn að fá neitt borgað af því að hann er ekki með kennitölu og getur þess vegna ekki opnað bankareikning og því er ekki hægt að greiða honum löglega, sem 101 hotel gerir alltaf! Og við erum sko að tala um útlendinga frá Skandinavíu og öðrum svæðum sem með lögum mega vinna hérlendis. Svo skilja greyið úgglendíngarnir eftir umboð hjá mér um að ég megi græja þeirra pappíra, sem þýðir A) þeir verða að treysta mér fyrir öllum þeirra fjármunum tilkomnum hérlendis (sem þeir gera reyndar, greyin, þeir eru svo grandalausir, heheeheh) B) ég lendi í alls kyns útskýringum á "catch-22" sítúasjón við frekar trega skattmenn, sem segja að þetta sé auðvitað allt saman ekki leyfilegt. Sem sagt: Á Íslandi vantar fleiri hundruð manns á sumrin til að dekka öll þau störf sem eru í boði. Margar stofnanir, bæði opinberar og í einkaeigu myndi ekki ganga án útlendinga sem koma hér til að vinna í sumarleyfinu sínu. Hins vegar, þegar þeir koma til landsins, þá eiga þeir að fá vinnu, sækja svo um kennitölu og bíða svo launalausir í allt að 2 mánuði svo allt sé nú eftir bókinni. Gengur hvorki upp fyrir þá né atvinnuveitandann. Gaaaaarrrrggggg!

Jamm. Punktur.

2006-08-22

Gott að eiga kött

sem knúsar mann í eiginmanns- og sonarleysi. Matti (aka Martin Luther King) eltir mig hvar sem ég sest í húsinu og vill bara sitja í fangi mér og mala. Kvölds og morgna liggur hann svo á bringu mér uppi í rúmi og malar eins og dráttarvél og klappar mér í framan með loppunum (oftast man hann eftir því að hafa klærnar inni, en ég ber ævarandi merki um eitt skipti þegar það gleymdist). Á það reyndar til að slefa af væntumþykju. Svoldið subbó. En ég skipti bara oftar um á rúminu, enda er það fljótt orðið svart af kattarhárum.

Hvílíkur félagi. Tekur á móti mér þegar ég kem heim og ef ég fer í labbitúr, kemur hann stundum með. Hann var örugglega hundur í fyrra lífi. En vinsamlegast segið honum það ekki. Honum er nett illa við hunda. Vill helst rífa þá á hol ef þeir nálgast húsið. Er ekki par hræddur. Bara svona varðköttur. Reyndar er honum nett illa við aðra ketti á okkar landareign. Rekur þá burtu með hörðu hvæsi og klóm. Kemur svo bísperrtur til baka með skottið þráðbeint upp í loft. Eða eins og skáldið sagði um köttinn: Aldrei þig jafnast aftanverð/manneskjan á við sundurgerð.

Bolir

Svona síðerma, svartir á kvenfólk. Leita dyrum og dyngjum. Skrítið að reka bisniss (og nú er ég að tala um hótelið) á Íslandi. Birgjar eiga oft ekki það sem mann vantar. Vín, föt, tannstöngla, nefndu það. Ekki til á landinu. Búið, kemur ekki aftur. Ekki nóg eftirspurn - hætt við. Svo situr maður uppi með flottan vínseðil, nýkominn úr rándýrri prentun, helminginn af starfsfólkinu bert að ofan (nei, kannski ekki alveg) o.s.frv. Sem sagt, ef einhver veit um síðerma, svarta kvenboli, með rúnnuðu hálsmáli, í einhverri verslun hér í bæ (gjarnan fleiri en 2 stk á lager), þá er samfélagsleg skylda að láta mig vita svo ég hætti að vakna í svita- og angistarkasti á næturna yfir stúlkunum hálfklæddu.

Amma Ruth

er sko búðin sem frá er sagt hér til hægri. Gaiki tervitullua = allir velkomnir (á finnsku - er ekki 100% á stafsetningunni). Ógysslega krúttleg lítil kjallarabúð. Allir fá Bismark eða perubrjósssssyk úr gömlu silfurtarínunni hennar Ömmu (Ruthar). Sérstaklega heppileg verslun til að finna óvenjulega og fallega gjöf handa þeim sem kunna að meta gamalt og gott. Líka óvenjuleg þjónusta: leita að munum í gömlu stellin. Reyndar er ekki hægt að finna alveg hvað sem er, en ég hef oft hjálpað fólki sem búið er að leita árum, jafnvel áratugum, saman. Wax lyrical o.s.frv. Opið lau.10-16, nema næsta laugardag. (Útimarkaður á Rauða torginu - sjá fyrri skrif). Svo má líka bara hringja og fá að koma ef ég er heima. Ferlega hentugt. Landsbyggðarfólk er sérdeilis ánægt með þjónustuna því ég tek ekki póstkröfugjald. Láta vita út á land, sko. Og svo er heimasíðan frekar flott: www.ammaruth.is

2006-08-21

Menning og menning

Jamm. Menningarnótt er ekki í hávegum höfð hjá mér því ég þarf að vinna það kvöld. Reyndar gekk það með ágætum. Fólk var dannað og tillitssamt við þjónana. Bara gott kvöld. En mikið gekk á. Allt tæmdist 5 mínútum fyrir flugelda (og við höfðum það af að rukka alla :)) og svo fylltist húsið aftur á 5 mínútum eftir flugelda og allir vildu flókna kokteila... Svoldið stress. En sem sagt í góðu lagi.

Svo kom sunnudagur. Böööö. Ég sofnaði ekki fyrr en undir morgun - upprifin eftir stuðkvöld í vinnunni og horfði því á Memoirs of a Geisha. Mæli ekki með henni. Bókin var hins vegar æði. Sem sagt, sem ég er nýlögst á mitt græna byrjar kvabbið úr vinnunni. sms klukkan 7:30: I am feeling a little sick. Can you get someone else... Sem útleggst: ég er þunn og langar ekki að vinna. Klukkan 11:30 (nýsofnuð aftur eftir reiðina yfir að vera vakin fyrir allar aldir): ring, ring, þjónarnir eru ekki mættir, hvað eigum við að gera? Eru það nú aumingjar með hor og slef... o.s.frv.
En úr deginum rættist samt því ég fór við fjórða mann á Landnámssetrið í Borgarnesi og sá flotta Egilssýningu, bæði svona safn-sýningu og eins Mr. Skallagrímsson. Bæði flott en sú síðarnefnda mjög rúmlega flott. Langar að fara aftur með öllum sem ég þekki. Hvet fólk eindregið til að fara. Benedikt Erlingsson fer algerlega á kostum. Svo er hann líka þokkalega myndarlegur (hef alltaf verið leynt skotin í honum).

Svo er núna kominn mánudagur - gosh hvað tæm flæs! Keypti miða fyrir okkur Snorra til Florida í nóvember, takk! Förum í sólina, keyptar verða jólagjafir, sólskinið sleikt, drukknir ódýrir kokteilar og Snorri fleygir sér kannski eitthvað út úr flugvél. Kannski ég líka. Raggi verður í fóstri á meðan. Bara svona hjónahuggulegheit.
Byrjaði líka að bera út auglýsingu fyrir Ömmu Ruth, sem er eitthvað að rétta úr kútnum. Fékk nefnilega til baka frá skattinum fyrir búðina, svo ég splæsti í netta A5 auglýsingu, sem ég bjó til sjálf og ég prenta. Svo er það líkamsrækt næstu vikna/mánaða að bera hana út. Kláraði eina götu og svitnaði passlega. Vonandi ber þetta árangur. Annars verður lokað næsta laugardag, því ég ætla að vera með á hinum frábæra og skemmtilega hverfismarkaði, sem verður á Rauða torginu. Óþarfi að panta miða til Moskvu, þetta er á horni Álfheima og Langholtsvegar, eftir hádegi á laugardaginn. Alltaf mikið stuð á þessum hverfismarkaði. Hlakka til, enda verður Raggi kominn og tekur eflaust þátt í þessu með mér. Get ekki beðið að fá strumpinn heim, enda er hann búinn að vera úti síðan 3.júlí. Snöft.

2006-08-18

½ gardínusett

Jamm, ég átti eftir að útskýra þetta ½ gardínusett. Rúllugardínurnar hans Ragga gáfu endanlega upp öndina og eru núna í skottinu á bílnum að bíða eftir fari í Sorpu. Hann langar svo agalega í eins gardínur og við hjónin erum með, sem eru svo sem ekkert merkilegar, nema honum finnst birtan í gegnum þau á morgnana vera svo agalega notaleg. Hvað gerir maður ekki fyrir strumpinn sinn - fúslega læt ég honum eftir gardínurnar og nota tækifærið og rí-dekoreita svefnherbergið okkar hjóna. Nema, babb í báti, við erum bara með einn glugga en Raggi tvo. Þannig að: nú stendur yfir æðisgengin leit að gardínuefni sem harmónerar með gardínunum okkar, svo hægt sé að kljúfa og búa til tvö sett úr einu. Þannig er þetta ½ gardínusett til komið. Og hana nú.

Laaaaangur dagur!

Byrjaði hálf sjö í morgunmatnum á 101 hotel. Yfir 60 manns skráðir í morgunmat og þó nokkrir bættust við sem voru að bíða eftir herbergi. Á tímabili gengum við Tobias hinn þýski milli óhreinna borða og leituðum að nothæfum servíettum... usssusss! Jæja, þetta fór allt á þann veg sem bóndi minn er vanur að segja: hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel.
Ellefu hentist ég svo niður í þvottahús og straujaði servíettur, þurrkaði handklæði og taldi lök þar til ég var að niðurlotum komin. Komst út klukkan fjögur, frekar framlág. Erðanú ástand á konu á fimmtugsaldri að vera að keyra sig út í svona. Núnú, ég hafði það nú samt af, á meðan ég taldi mínúturnar sem servíetturnar mega vera í þurrkaranum til að verða ekki of þurrar fyrir straujun, að pósta þrjár atvinnuauglýsingar á job.is. Ef einhver les þetta sem vantar vinnu, þá er málið sko að tala við mig!!!
Við Tobias komum okkur svo heim og eftir sturtu og tvo vodka/greip horfði ég á Das Wunder Aus Bern - agalega sæt þýsk fjölskyldumynd. Tobiasi til heiðurs hef ég verið duglega að horfa á þýskar myndir undanfarið.
Fyrir þá sem halda að ég hafi skipt Snorra út, þá er best að upplýsa að Tobias er 22 þýskur strákur sem vinnur á 101 hotel og var húsnæðislaus. Hann sefur í stofunni og slær fyrir mig garðinn og þess háttar. Ágætt fyrirkomulag - hann er ósköp snyrtilegur og þægilegur.
Snorri bjallaði svo áðan frá Afghanistan og þeir halda upp á þjóðhátíðardag sinn á morgun. Sjö lömb hafa verið keypt til slátrunar og búið að panta fimm þarlenda tónlistarmenn til að halda partí á vegum íslenskra friðargæsluliða. Mér datt í hug að erfitt hefði verið að fá menn til að elda og spila á sjálfum þjóðhátíðardeginum, en peningar tala sínu máli í fátæku landi! Íslendingarnir voru löngu búnir að plana partí fyrir sig og sína nánunstu vini (sirka 200 stk...) og komust svo nýlega að því að allt landið væri að halda partí á sama tíma. Það verður örugglega heljarmikið húllumhæ.
Eftir viku kemur Raggi yfirstrumpur heim og mamma hans getur ekki beðið! Búin að kaupa skólabækurnar fyrir hann, nýtt hjól og þrífa herbergið hátt og lágt. Þetta er náttúrulega svoldið sikk... en svona er að eiga erfðaprins...
Skjáumst fljótlega, gott fólk. Er farin að safna kröftum fyrir morgundaginn: fyrst búðin frá 10-16 og svo 101 hotel fram eftir öllu. Ég hata menningarnótt...böbööö
Ester

2006-08-16

Reynum aftur!

Nú er Hildigunnur við hliðina á mér til að hjálpa mér í gang aftur. Þetta hlýtur að ganga í þetta sinn. Erum að hlaupa út að kaupa ½ gardínusett - skýri síðar. Skjáumst! Ester