2006-08-29

Margt umleikis

svona á haustdögum. Nú verður maður víst að telja haustið komið í lok ágúst - miðast það ekki svona við fyrstu skóladagana? Strumpur kominn á fullt í 9.bekk. Þetta stækkar...

Jæja, bloggdólgurinn dró í land og 101 hotel fær uppreisn æru. Gott mál.

Tengdó kemur að tína ber í kvöld - hér svignar sólberjarunninn og annar rifsberjarunninn er bústinn og flottur líka. Hinn er hins vegar hrikalega ræfilslegur. Skrýtið. Sennilega ekki sama kvæni. Ég á von á að tengdó tíni ekki allt, sérstaklega ekki af sólberjum. Við borðum sáralítið af sultu hér á heimilinu, en mér þætti bráðsnjallt að búa til sólberjasaft. Kann einhver uppskrift að slíku?

Svo verða settar upp nýjar rúllugardínur hjá strumpi og í sjónvarpsherbergið, sem fékk andlitslyftingu síðasta vetur, en alltaf átti eftir að finna myrkvun fyrir gluggann, svo hægt sé að horfa á imbann á sumarkvöldum. Fór sko niður í Z-brautir og gluggatjöld í síðustu viku með gömlu rúllugardínurnar úr herbergi strumps og pantaði eitt sett af nýjum. Fór svo heim og mældi fyrir sjónvarpsherbergisglugganum (vá, flott orð í hengimann) og hringdi inn málin. Var sérstaklega búin að höggva eftir því í rúllugardínusýnishornarekkanum (vá, VÁ) að breiddarmál skildu vera stíf. Mældi upp á 71,5 cm í breidd. Þegar ég svo náði í gardínurnar, sá ég miða á kassanum sem á stóð að breiddarmál rúllugardína skyldu vera stíf UPP Á MILLIMETER. Úppps. Ég var ekki svo nákvæm. Fór heim og þóttist viss að nú hefði ég hlaupið á mig, en viti menn! Gardínan smellpassar! Nú segi ég bara eins og Kristín frænka mín Huber í Þýskalandi: Ich bin ein Glückskind! Sem útleggst fyrir Snorra (því hann er ekki þýskumælandi): Ég er lukkubarn.

Nú er byrjað að elda aftur hér á kvöldin - ekki dugir að reyta einungis snarl í stækkandi strump. Þetta er heldur flóknara svona mjólkurvöru-, lauk-, sykur- og fisklaust, en hefst samt. Ég svindla eilítið og slepp oftast fyrir horn. T.d. er sykur í flestum góðum austurlenskum sósum (og eiginlega öllum tilbúnum sósum), en ég borða þá bara lítið. Verra er með innihaldslýsingar þar sem stendur bara: krydd. Þá má gera ráð fyrir því að í því sé annað hvort laukur eða hvítlaukur, nema hvort tveggja sé. Það sleppur ekki eins vel í mallan á mér eins og örlítil sykursynd. Þetta lærist og er eiginlega svolítið spennandi að prófa sig áfram með svona mörgum hindrunum. Ég hef alltaf verið svolítið fyrir svona tsjallens. Ætla að reyna að útbúa pastasalat í kvöld með kjúllaafgöngum, tómötum, kóríander, maís og austurlenskri sósu

Fyllist nú áhuga á að kíkja í matreiðslubækur og athuga hvað hægt sé að útfæra mér í hag. Skjáumst síðar.

3 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

gott þegar fólk getur séð að sér...

og megum við koma og kíkja á sólber einhvern tímann? Um helgina, kannski?

29/8/06 19:05  
Blogger Ester Elíasdóttir said...

Hei, ég var að fatta þetta með comments. Ég er tæknilegur örviti.

Verið hjartanlega velkomin í sólber - helst á morgun (lau) því þá er ég heima. Þau eru við það að gerjast og eru ógyssssslega góð.

1/9/06 19:08  
Blogger Hildigunnur said...

haha, ég sem ætlaði einmitt að fara að skamma þig fyrir brot á netiquette að svara ekki kommentum. Kíkjum seinnipartinn á morgun eða annað kvöld, erum að fara í veislu hjá Áslaugu eitthvað fram eftir degi.

1/9/06 21:21  

Post a Comment

<< Home