2007-01-29

Afmælisboðin tvö afstaðin

Og mikið var nú gaman. Mamma ætti bara að verða áttræð aftur fljótlega! Öll barnabörn foreldra hennar voru saman komin á sama tímapunkti og -stað TVISVAR á einum sólarhring. Slíkt hefur ekki gerst síðan einhvern tímann um jól fyrir 35-40 árum síðan. Einn frændinn heldur heim á leið til Manchester í dag, ein frænkan til Svartaskógar á fimmtudaginn, en sá frændinn sem hefur aðsetur í Svíþjóð, ætlar að vinna eitthvað hérlendis áður en hann heldur aftur til fjölskyldu sinnar þar. Fátt um fína vinnudrætti á hans slóðum í Svíaríki.

Fullt að gera í Ömmu Ruth á laugardaginn og því miður náði ég ekki að fara á tónleikana hans pabba. Varð að hvíla mig fyrir kvöldið, því ég var við það að missa mál af þreytu. Allan daginn í gær stóð ég svo í kaffiuppáhellingi, uppvaski og áfyllingu á kaffibrauði hjá mömmu. Hildigunnur kannast við að ég er bara nokkuð góð í slíku. Enda var ég komin í náttfötin um átta-leytið í gærkvöldi.

Ætla bara að kíkja í vinnuna í dag og vona að ekkert sér þar fyrir mig að gera. Í vinnunni hjá mér eru nefnilega ekki margir fastir liðir, heldur verkefni sem dúkka upp. Stundum er því allt á haus og stundum afskaplega þægilega rólegt. Ég er hins vegar búin að komast að því að því minna sem ég læt sjá mig, þeim mun minna fellur í mitt skaut af löðurmannlegum verkefnum sem aðrir, á lægri launum en ég, gætu innt af hendi með bundið fyrir augun. Það er því ákveðinn kostur fyrir fyrirtækið að ég komi ekki of mikið, en kannski ekki alveg eins gott fyrir veskið mitt. Ég bara get ekki hugsað mér að hanga þar daginn út og inn og dunda mér í einhverju föndri, bara til að fá feitari útborgun. Þá vil ég frekar fara í göngutúr, sauma, blogga eða klippa á mér táneglurnar.

Ætla nú samt hér með í sturtu og svo í heimsókn í vinnuna. Geymi sem mestan orkuskammt fyrir læknisheimsóknina seinni partinn, svo ég geti heimtað lausnir við geðrænum vandræðum.

2007-01-27

Stígandi

er yfir mér. Kom óskaplega miklu í verk í gær og dagurinn í dag er þéttsetinn, sem og morgundagurinn. Kvíði svolítið að ganga of nærri mér, en get ekki sleppt neinu af því sem er að gerast:

Opið í Ömmu Ruth til 15.45 (ekki 16.00 eins og venjulega)
Kl.16.00 fer ég á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Tónlistarskólanna í Langholtskirkju, þar sem frumflutt verður verk eftir pabba.
Kl.19.00 verður forafmælisveisla fyrir mömmu (hún verður 80 ára á morgun). Ég vélaði nebblega frændsystkini mín sem búa erlendis til landsins, svo við ætlum öll að hittast í kvöld. Það slagar sennilega í 30 ár síðan við vorum öll saman komin á sama stað á sama tíma. Mikil tilhlökkun. Mamma alveg í skýjunum yfir þessu framtaki mínu, og eins því að þau skyldu öll hlýða kallinu.

Á morgun er mamma svo áttræð og verður með heitt á könnunni heima hjá sér fyrir gesti og gangandi. Maður stendur auðvitað vaktina og það verður gaman líka. Geri ráð fyrir skemmtilegum degi.

Verst hvað mér gengur illa að sofa. Vont að keyra á skertum svefnskammti. Get ekki tekið mér frí á mánudaginn, en kannski á þriðjudaginn. Þá kemur Naiyana krúsídúlla til mín fyrir hádegi, svo kannski ég liggi bara í leti í hreinu og fínu húsi um eftirmiðdaginn. Ekkert kannski! Það er bara ákveðið hér með, og þá get ég hlakkað til. Keypti mér 4 pokketbækur í Góða Hirðinum í fyrradag, sem bíða lesturs, og svo er bútasaumsteppið góða alltaf til taks.

Mér sýnist nú á ofangreindu bloggi að ég sé bara í nokkuð góðu standi. Mér hættir bara helst til að verða frekar pirriteruð og geðfúl á kvöldin, þegar öll orka er uppurin en ýmis verk eftir.

2007-01-24

Hænuskref

Jæja, bloggfær að nýju. Að mestu. Verst að nú er bansett vefjagigtin búin að taka sig upp með hávaða og látum en ég hef varla vitað af henni í 2-3 ár! Mín tilgáta er sú að að þunglyndislyfin hafi hjálpað heilmikið upp á og að þegar áhrifa þeirra gætir ekki lengur er allt í drasli. Hins vegar, á meðan ég var með barni, var ég svo einbeitt og staðráðin í að vera ekki veik að ég bældi allt slíkt niður með hörku. Sem kemur mér sannarlega í koll núna.

Á tíma hjá heimilislækni næsta mánudag og þaðan fer ég EKKI út fyrr en hann er búinn að koma mér í hendurnar á færum geðlækni. Hef nefnilega verið geðlæknislaus í 3 ár, eða frá því minn yndislegi og ástkæri læknir hætti að reka stofu. Ætla ekki að byrja lyfjatöku á ný samkvæmt eigin höfði. Slíkt er aldrei ráðlegt, kannski síst með geðlyf. Í millitíðinni eru það stuttir vinnudagar (í mesta lagi 4 tímar), göngutúrar og fresta-forever því sem ekki er bráðnauðsynlegt.

Svo er janúar alveg að verða búinn! Febrúar er skárri af því að hann er þremur dögum styttri!

2007-01-18

Núllstilling

Þannig líður mér. Og það er ekki eins vont og ég átti von á. Alla veganna í dag. Einn dagur í einu, er það ekki?

Aðgerð gekk vel, fyrir utan mótefnasprautu sem gleymdist að gefa mér (ég er rhesus-negatív, ef það segir ykkur eitthvað), svo ég þurfti að drattast fram úr bæli í eftirmiðdag og koma mér aftur upp á spítala. Mamma var til halds og trausts og tengdapabbi keyrði fram og til baka í marggang. Strumpur kemur á nokkurra mínútna fresti til að veita mér knús og klapp. Bóndinn kemst ekki heim fyrr en á laugardag, vegna fannfergis í Kabúl, en hann kemur þó.

Mikið á ég góða að. Og gott er að geta munað það þegar illa gengur og geðið aumt.

2007-01-17

Botninum náð og dulúðinni aflétt

Óvæntri og afskaplega gleðilegri þungun minni, sem við hjónin vorum alveg búin að gefa upp á bátinn fyrir mörgum árum, er lokið. Ekki með fæðingu, heldur náði fóstrið ekki nema 9-10 vikna þroska og lést svo. Aðgerð í fyrramálið til að hreinsa út.

Bóndinn er á leiðinni heim frá Afganistan og nánustu vinir og fjölskylda umlykja mig en svartnættið er samt innan seilingar.

Sorg borin á torg? Kannski. Það verður þá bara að hafa það.

2007-01-16

Dáldið góður dagur.

Já, ber ekki að fagna þeim? Bara svona alltílæ dagur. Fékk Naiyönu vinkonu mína og tuskusérfræðing til að aðstoða mig við þrifin í dag og mér líður alltaf vel þegar heimilið er hreint og hver hlutur á sínum stað... tja, eða svona flestir. Naiyana kemur á hálfsmánaðar fresti til mín og þá tek ég til og hún þrífur. Alveg dægilegt fyrirkomulag. Svo fáum við okkur kaffisopa og þá tala ég bara íslensku við hana (annars tölum við ensku).

Vel á minnst: Við leitum logandi ljósi að tilsjónarmanni fyrir son hennar, tæplega 10 ára. Honum gengur ekkert allt of vel að fóta sig í skólanum, skinninu, og hefði rosalega gott af leiðsögn og félagsskap ungs manns. Viðkomandi þyrfti auðvitað að vera barngóður og geta hjálpað honum með heimanám, spjallað við hann, e.t.v. farið með honum á listasöfn (drengurinn er listelskur og drátthagur) o.s.frv. Búið er að fá samþykki fyrir þessu á féló, en starfsmanninn vantar.

Sagan á bak við þetta allt; skilningsleysi skólans, umkomuleysi fjölskyldunnar og mitt inngrip, er efni í laaaaaangt blogg, sem ég hlífi ykkur við nema forvitnin sé að drepa ykkur.

Bar út í Steinagerði, Bakkagerði, Teigagerði og blokkirnar á Grensásvegi í dag. Kalt! En alltaf gerir gangan mér gott og ég er vel klædd. Reyndar er úlpan mín í ónáð, því hún er svo til ný og fóðrið er strax farið að rifna. Fussumfei. Keypt á útsölumarkaði 66°. En ég á von á sendingu frá Afganistan via Þýskaland (í gegnum Íslending sem sendur er á námskeið frá Afganistan til Þýskalands og hittir þar konu sína, sem tekur pakkann heim): North Face últradúnúlpu frá bóndanum. Hann vorkennir mér svo hérna í kuldanum. Reyndar er mun kaldara hjá honum en mér, en mér er samt kaldara en honum... eða þannig.

Vonandi verður svo bara glimrandi hamingjusöm og skemmtileg færsla hér annað kvöld. Krossum fingur!

2007-01-15

Geðsveiflur og annað gotterí

Bíð nú í miklum geðsveiflum eftir miðvikudegi, til að vita hvort kannski-vondu fréttirnar frá síðasta fimmtudegi reynist á rökum reistar.

Á laugardag var fullt að gera á öðrum í útsölu hjá Ömmu Ruth, en geðið var þannig að ég næstum bölvaði í hvert sinn sem einhver vogaði sér hér inn. Spilaði þar stóra rullu einnig uppgjör mikið við únglínginn, sem hefur gerst uppvís að svikum varðandi samninga um takmörkun tölvunotkunar, ásamt minniháttar slugsi varðandi umgengni o.fl. Það mál var svo útkljáð um kvöldið með predikun, tiltekinni refsingu og nánum fyrirmælum um hegðun í náinni framtíð. Únglíngurinn tók þessu nú bara eins og maður og ætlar að taka út sína refsingu möglunarlaust. Og vonandi halda sig á mottunni...

Í gær var líðanin skárri. Mér tókst næstum því að sannfæra sjálfa mig um að þetta væri allt saman óttaleg vænissýki. En ekki alveg. Haddi og Ella, besta-vinafólk, björguðu deginum með því að draga mig á kaffi París í rosalega góðan latte og rosalega miðlungs ostaköku. Og rosalega skemmtilegan félagsskap.

Bóndinn hringir nú næstum því daglega frá Fjarkistan til að veita spúsunni andlegan stuðning. Ekki veitir af.

Er komin í náttföt og slopp þótt klukkan sé ekki einu sinni orðin 18.00 og er gríðarlega fegin að hafa eldað Lasagna í gærkvöldi, því þá má hita upp afganga í kvöld. Hitapokinn er hitaður mörgum sinnum á kveldi, en allt kemur fyrir ekki. Mér verður bara EKKI heitt. Það er ömurlegt að eyða öllum kvöldum með glamrandi tennur. Svo er hljóðið svo pirrandi...

Þetta er ekkert líf - alla veganna í dag. Sýnist á færslunni að það sé annar hvor dagur sem er svona fúll. Hlakka til á morgun. Hey! Tókuð þið eftir? Ég HLAKKA til. Þá er ekki öll von úti enn.

2007-01-11

Kannski-vondar fréttir...???

Fékk óþægilegar fréttir í dag. Veit ekki enn hvort þær eru vondar eða ekki. Það ætti að skýrast næsta miðvikudag.

Sorrí að vera svona kriptikk. Allt upplýsist von bráðar.

Fór í últralangan göngutúr í massaðri snjókomu til að losa mig við stress, neikvæðar hugsanir og geðfýlu. Tókst bara furðuvel.

Bútasaumur í kvöld - klikkar ekki til að kæta. Eina sem skyggir þar á að í þessum kulda er ég öll sprungin á fingrunum og svolítið sárt að sauma. Búin að prófa x-tán gerðir af handáburði. Góðar ábendingar vel þegnar.

2007-01-10

Fjúkkett!

Komst ekki inn á bloggið mitt í nokkra daga. Hélt ég þyrfti að kalla út Hjálparsveit tækniheftra bloggara. Svo lagaðist þetta bara af sjálfu sér.

Var að hlýða Strumpi yfir, fyrir íslenskupróf. Hér varð heilmikið debat um persónulegar og ópersónulegar sagnir (og hvernig þær greinast hvur frá annarri). Tvisvar var hringt í kennarann og einu sinni í mjög fróðan frænda. Strumpur skilur þetta núna. Ekki ég. Enda kenndi ég ensku. Verð alltaf svolítið stressuð þegar hann biður um hjálp fyrir íslenskupróf. Eina fagið sem ég get ekki hugsað mér að kenna, því ég kann ekki nóg. Nja, kannski ekki upplýsingatækni eða íþróttir heldur...

Annars er vikan bara búin að vera drulluerfið! Og hananú! Þoli ákaflega illa þennan fimbulkulda. Er með bæði andlega og líkamlega verki. Panódíl hjálpar þeim líkamlegu en þeir andlegu brjótast aðallega út í tilfinningunni um að allir séu FÍFL! Þoli ekki meira en fjóra tíma í vinnunni áður en skrýmslið inni í mér vill fara að segja eitthvað eitrað við einhvern. Sem á það, NB, oftast skilið, en það skilar sér samt ekki í neinni andfíflu fyrir viðkomandi.

Þið sem hafið skjéð mig (þátíð af að skjá) í einhvern tíma munið kannski eftir köldum kalkún á svefnlyfin hér í haust. Nú er það kaldur kalkúnn á þunglyndislyfin, sem ég er búin að taka í fimm ár. Ákveðnar, mjög áríðandi, ástæður fyrir því. En mikið djö..... er þetta erfitt. ÆTLA að þrauka.

Verð heima í andlegri og líkamlegri hvíld á morgun og næ þess vegna að fara aftur til vinnu á föstudaginn. Vonandi.

Er farin að sofa í náttfötum, flíspeysu, varmasokkum, með risa-hitapoka og tvær sængur. Og hroll.

2007-01-06

Ónýtt lín

Er dottin ofan í bútasauminn minn, sem gerist nokkrum sinnum á ári í nokkrar vikur. Ég bútasauma efir agalega anal reglum:

1. Ég sauma aðeins í höndunum (á ekki saumavél). Öll samsetning og frágangur er líka í höndunum.
2. Ég sauma aðeins úr endurunnum efnum (með mjög takmörkuðum undantekningum). Sjá nánar að neðan.
3. Hvert stykki er einstakt og upp úr mér, þótt ég fái stundum hugmyndir héðan og þaðan.
4. Hvert stykki tekur að meðaltali 3 ár í framleiðslu, sem gerir ekkert til, því ég framleiði eingöngu erfðagripi sem fara aldrei úr tísku.
5. Í hverju stykki á hvert efni helst að koma aðeins einu sinni fyrir.

Í framhaldi af reglu númer 2 og 5, vantar mig alltaf efni, þ.e.a.s. úrval en ekki magn. Nú skora ég á ykkur að hugsa til mín, áður en þið farið í Sorpu næst, og athuga hvort ekki má láta tjéllinguna með nálina fá eitthvað.

Ég nota aðallega hrein og blönduð bómullarefni, án teygju, en í sumum tilfellum kemur fleira til greina. Í teppunum mínum eru saumaafgangar, skyrtur, blússur, pils, kjólar, buxur, hálsklútar, dúkar, servíettur, sængurföt, lök, viskustykki, náttföt, gluggatjöld, vasaklútar, boxerar og meira að segja lífstykki frá ömmu minni. Og eflaust er ég að gleyma einhverju.

Ef ég fæ eitthvað sem ég get ekki notað, læt ég það í Sorpu eða kem því áleiðis til annarra bútasaumskvenna sem nota öðruvísi efni en ég. Ég er nefnilega í alveg frábærum svoleiðis klúbbi með dýrlegum konum, sem gætu flestar verið mömmur mínar.

Fyrsti í útsölu glimrandi góður

Jebbs, þið komið svo öll næst, ekki satt? Þrír laugardagar eftir...

Vigta útsölu-IKEA vigtar ekki örugglega vitlaust?

Ég nebbla keypti eina á 390 kall í vikunni, þegar ég var í IKEA. Hef ekki vigtað mig síðan í maí eða júní. En þessi vigt er örugglega vitlaus, því hún sýnir að ég sé 70 kíló! (Fyrir ykkur sem ekki þekkja mig í sjón, þá er ég 160 cm á hæð).

Ég steig af vigtinni og kíkti í stóra spegilinn á baðinu og horfði á mig, alveg klæðislausa, og sá bara hreinlega ekki hvar þessi auka 10-15 kíló eru, sem ég er víst með utan á mér miðað við hæð o.fl. Hrikalega hlýt ég að vera mössuð! Nei, svona í alvöru, ætli ég þjáist af öfugri Dysmorphiu? Það er alveg sama hvað ég þyngist, mér finnst ég alltaf bara svoldið flott! Ókei, ég er alveg tilbúin að viðurkenna að ég væri sennilega ennþá flottari ef ég væri heldur grennri, en ef ég grenntist um öll þessi ofangreindu kíló, þá væri ég bara frekar Auschwitz-leg og það þykir nú ekki par fínt hjá hálfum gyðingi...

Á ég að hafa áhyggjur af þessu eða bara henda vigtinni (mar hefur nú eitt 390 kalli í aðra eins vitleysu).

2007-01-05

Ætlar þú ekki að koma?

Á útsöluna hjá Ömmu Ruth?

Betri dagur í dag og svona óvenju afkastamikill...

Jú, þegar maður þjáist af þunglyndi, er dagamunur. Í gær var allt erfitt og dimmt, en í dag er betri dagur. Þetta getur maður alltaf huggað sig við (svona þegar maður nær að hugga sig við eitthvað - ekki alltaf hægt), að hver dagur er nýr og kannski bara betri!

Kom alveg svakalega miklu í verk í dag, sem er alltaf mikil upplyfting.

Nú er bara heilsubótar-útburðar-gangan eftir. Það er sem sagt klukkutíma göngutúr þar sem ég ber út auglýsingu fyrir Ömmu Ruth. Byrjaði í sumar og er búin með allt Voga, Heima, Sund, Teiga og Læki og er núna í Gerðunum. Alveg brillíant plan:

A. Fæ þá hreyfingu sem hugur og skrokkur þurfa, án þess að þykja það leiðinlegt.
B. Auglýsi Ömmu Ruth - ekki veitir af, börnin góð!
C. Hitti fullt af bráðskemmtilegum og vinalegum köttum.
D. Sé mörg skemmtileg, falleg, ljót, skrýtin, sóðaleg, undarleg, glæsileg hús.
E. Mynda mér skoðun á bréfalúgum

Jamm.

2007-01-04

27 dagar eftir...

... af ömurlegasta mánuði ársins. Reyndar er febrúar þokkalega ömurlegur líka, en hann er oftast 3 dögum styttri.

Myrkur og vibbaveður.

Til allrar hamingju eru glætur:

Tilvonandi stuð í Ömmu Ruth, með hörkuútsölu (skoða línkinn...)
Áttræðisafmæli mömmu seinna í mánuðinum og ég að plotta smásmá...

Upptalið.

Minnið mig endilega á ef ykkur detta fleiri glætur í hug. Hjálp.

Jú, ætla að hlusta á Syngibjörgu (sjá línk) á sunnudagskvöldið á Nasa. Getur ekki orðið leiðinlegt!

Hjálp samt.