2006-09-01

Ekki nóg með

að við hjónin ætlum til Florida í nóvember, heldur erum við líka búin að sammælast um að hittast í Köben þegar hann er á leiðinni heim! 12-17 október ætlum við að vera á huggulegu hóteli, borða góðan mat og fara á fullt af loppemarkeder... fyrir Ömmu Ruth. Reyndar þurfti ég að lofa því í Skype-samtali til Afghanistan áðan að eyða ekki öllum tímanum í antikbúðum og á flóamörkuðum. Ohhhhh... Ég er strax farin að safna addressum á antikbúðum og flóamörkuðum í Florida - svona á svæðinu þar sem við verðum. Alveg sjúk. Gott fyrir Ömmu Ruth.

Nú fer Tobias heim til Þýskalands í nótt. Gott verður að koma stofunni aftur í stand en slæmt að missa sláttumanninn. Verð bara að þjálfa strump.

Fór út að borða á 101 í gærkvöldi (fékk spes leyfi, því starfsfólki er ekki ætlað að borða þar, eins og víða í veitingageiranum). Verð eiginlega að mæla með matnum. Hann var bara æðislegur! Fengum rétt kvöldsins - hvítvínssoðna stórlúðu með humri og fettuchine. Algert lostæti! Það er von á nýjum matseðli, sem ég er að prófarkarlesa. Hann lítur hrikalega vel út og verðið er mjög sanngjarnt á réttunum.

Tók mér frí í gær og þreif skrifstofuna mína. Ekki veitti af! Fann margan fjársjóðinn, t.d. netfangið hjá kallinum sem er að smíða brynju á Snorra og eldgamlan miða með símanúmeri mannsins sem steypti fyrir mig kjallaratröppurnar fyrir tveimur árum og sem eru að gefa sig aftur. Hah! Nú fær hann sko að heyra í mér! Ég mundi nefnilega bara að hann hét Jónas, og auðvitað fékk ég aldrei neinn reikning hjá honum. Rosalega eru margir iðnaðarmenn gjarnir á að kúga fólk! Vinafólk mitt er búið að búa heima hjá foreldrum hennar síðan fyrir jól (!!!) því iðnaðarmennirnir sem eru að gera upp húsið þeirra (bara eina hæð, takið eftir), eru búnir að vera að gera flest allt annað (á öðrum stöðum). Þau voru að fá nýja áætlun í gær: a.m.k. 3 mánuðir í viðbót. Þá sagði vinkona mín stopp. Hún er að fara í erfiða aðgerð og sagði þeim að þetta gengi bara ekki lengur. Eftir að hafa lesið yfir þeim og þrýst á þá, kom ný áætlun: svona 10-14 dagar!!! Jamm. Sem segir sitt um fyrri áætlun. Guði sé lof að ég á góða að sem kunna að vinna með höndunum. Þrefalt húrra fyrir tengdapabba mínum og svila. Og Guðjóni píparavini.

Mikið veggfóðurstremma í gangi. Á ég að kaupa skrautlega Laura Ashley veggfóðrið sem engum finnst flott nema mér eða reyna að finna eitthvað flottara á netinu og kaupa í Ameríku (nú, eða Danmörku). Reyndar finnst fólki þetta veggfóður ekki ljótt - því finnst bara að það megi ekki vera svona skrautlegt í svefnherberginu (eða neins staðar annars staðar). Voðalegar skræfur eru þetta. Ef þetta verður algjör bömmer, þá mála ég bara yfir. Jújú, þetta kostar einhvern pening og vinnu, en maður verður nú að taka smá séns stundum ef maður fellur fyrir einhverju flottu. Ég minni fólk nú á að þegar ég ákvað að mála innréttingarnar gömlu, í eldhúsinu, ljósbláar og milliverkið kóralbleikt, voru uppi háværar efasemdarraddir. Nú, þetta kom bara vel út, þótt það hafi kannski ekki allir smekk fyrir að hafa svona heima hjá sér. Allir voða hissa hvað þetta er sætt. Nema ég. Jamm, það væri nú samt gaman að googla svolítið veggfóður... humm... hum...

1 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

já já og aftur já. Kaupa. Mér fannst þetta líka flott!

1/9/06 21:26  

Post a Comment

<< Home