2006-09-28

Mér er misboðið

10-15.000 manns gengu með Ómari og frú Vigdísi. Fjölmiðlar gerðu úr því eina mynd og nokkur orð. Svona: krúttlegt og næs - allir svo sætir og góðir og náttúrusinnaðir. Hvenær gengu 10-15.000 manns síðast saman til að mótmæla einhverju! Ha!!! Frjálsir fjölmiðlar? Hlutlaus umfjöllun? Er einhver ekki sammála?

Hefði gengið ef hitinn hefði verið lægri og hóstinn minni. Og ekki endilega fyrst og fremst vegna umhverfissjónarmiða heldur til að mótmæla þeirri stefnu að leggjast niður og glenna út klofið fyrir einu illræmdasta stórfyrirtæki í heimi.

Urrrrrrr.

2006-09-24

Hóst, snöft

Ekki batnar það. Loksins er ég búin að kveða kalkúninn í kútinn en þá tekur hóstinn við að halda fyrir mér vöku. Búin að hósta á 4ðu viku. Í dag leystist hóstinn loks upp í krananefskvef. Veiii.

Er búin að reyna að hafa hátt undir höfði á næturnar, síðustu vikuna, svo ég hósti ekki eins svakalega. Það leiddi af sér hálsríg dauðans. Er undirlögð af vefjgigtarverkjum, hósta, nefrennsli og hálsríg. Er eiginlega ekki á vetur setjandi. Samt er enn von: þetta getur varla versnað... Hehe, ætli ég fari ekki bara á túr í ofanálag...

Sem minnir mig á svolítið skemmtilegt (ekki veitir af). Ég var búin að eiga í óttalegu basli við blæðingar - þær stóðu yfir í allt að 10 daga - og datt svona helst í hug að nú væri breytingaskeiðið að hefjast. Kannski svona með fyrra fallinu, en hvað dettur manni ekki í hug. Fór með hálfum huga til kvensjúkdómalæknis míns, sem hlustaði á raunir mínar. Svo skoðaði hann mig og sagði: Hei, ég sé hvað er að. Ég geri bara við þetta. Svo kom smá potpot og pínu æjæj og svo var ég bara búin í viðgerð! Og hef ekki verið við þetta vandamál vör síðan! Segiði svo að heimsóknir til læknis geti ekki verið svolítið skemmtilegar!

Er barasta komin í miklu betra skap að rifja upp þessa sögu. Ætla að fara snýta mér svona 15 sinnum og vita hvort það dugar ekki fram eftir kvöldi.

2006-09-21

Öfugsnúinn sólarhringur til hálfs

Erfiðlega gengur með kalda kalkúninn en ég er samt BJARTSÝN (takið eftir, Baun og Syngibjörg) á að þetta muni hafast.

Eiginlega sofna ég ekki fyrr en undir morgun og vakna svo upp úr afar óþægilegum draumförum, sveitt og súr, undir hádegið. Fátt man ég af draumförum nema að ég var m.a. hálfa nótt að skafa kísil innan úr sturtuhurðunum. Þetta flokkast víst seint undir martröð, en samt ekki neitt skemmtiefni. Vá, í hverju ætli undirmeðvitundin sé að pæla, fyrst mig dreymir svo þungt um svo ómerkilegt efni... Ekki viss um að ég vilji vita það. Þetta er eitthvað hevví anal...

2006-09-18

Kaldur kalkúnn

á svefntöflurnar! Þegar ég kom heim í augnabliks óallsgáðu ástandi snemma á sunnudagsmorguninn var ég nú ekki ölvaðri en svo að mér fannst óþarfi að bæta svefntöflum ofan á allt glundrið. Svaf nú ekki mikið eða vel, en lifði gærdaginn samt blessunarlega af. Ákvað svo í gærkvöldi að halda hetjudáðum áfram og fór í rúmið lyfjalaus. Var andvaka alla nóttina en náði að dorma svona 3-4 tíma í morgun. Verra verður það ekki (af fyrri reynslu), svo nú er bara að halda sínu striki og losa sig við gervisvefninn.

Þið sem notið svefnlyf, ekki misskilja mig. Þau eiga fullkomlega rétt á sér við sumar aðstæður og hafa bjargað mér frá innlögn á geðdeild á stundum. En núna þarf ég að prófa að vera án þeirra og vita hvernig gengur.

Geðið á uppleið... og lífið að taka á sig lit.

Gaman að vera til í dag. Ætla að gera ráð fyrir að morgundagurinn verði líka þokkalega góður! Lifi bjartsýnin...

Matti malar

eins og dráttarvél. Hann fann nebbla lykt af fiski sem ég var að sjóða áðan og vefur sér nú utan um fingur mér á lyklaborðinu, teygir fram tærnar og dúmpar létt á mig, snýr sér svo á bakið og blimskakkar augunum til að vita hvort ég skilji ekki hintið: Drullastu til að gefa mér soðningu! Nýsoðinn fiskur er það allra besta sem hann fær. Skrýtið. Ég man þá tíð að heimiliskötturinn (þegar ég var lítil) fékk alltaf soðningu og varð þvílíkt uppnuminn að fá eitthvað annað.

Annars veit hann Matti nú hvað hann syngur. Skilur líðan mína betur en nokkur annar heimilismaður - veit hvenær hann á að koma og knúsa mig og hvenær hann á að láta mig í friði. Nema ef fiskur er annars vegar, þá slær út í fyrir honum. Þorsklyktin glepur og villir honum sýn. T.d. á hann alveg að vita að lyklaborðið er heilagt!

Hann er nú flottastur katta...

2006-09-17

Ojojojjjjj

Hrundi bara í'ðað í nótt!

Var að vinna í gærkvöldi á 101. Allt gekk eins og í sögu í samkvæminu mikla og þegar búið var að loka tók ég þá ákvörðun að kíkja nú einu sinni með vinnufélögunum yfir á Næsta bar og taka bara leigubíl heim. Ætlaði að fá mér einn drykk....

Áttaði mig eftir tvo tvöfalda og viskískot að klukkan var orðin fimm og verið að loka... Vorum sko að spila bráðskemmtilegt spil sem nefnist Forseti og skemmtum okkur konunglega (nú, eða forsetalega). Komst heim við góðan leik, en varð eitthvað svoldið lasleg þegar ég lagðist upp í, svo ég eyddi meira en klukkutíma í að rölta um húsið, borða og drekka vatn, til að forðast vanlíðan. Svaf svo fram eftir degi og er bara nokkuð brött.

Það er augljóslega ódýrt að fylla mig, en ég er ekki frá því að ég kíki aftur með krökkunum, þótt ég láti mér kannski einn drykk nægja næst. Það var voðalega gaman. Eiginlega bara akkúrat það sem ég þurfti eftir depurð síðustu vikna.

Og allt er á uppleið.

2006-09-15

Köben í höfn

Semsagt búin að kaupa miða til Kaupmannahafnar. Ætlaði að nota vildarpunkta, en það er alltaf uppselt í vildarpunktasætin, þótt önnur lággjaldasæti séu hvert um annað þvert. óvell.

Svo er verið að græja FÍNT hótel fyrir okkur og hin ,,offiserahjónin" sem verða þarna á sama tíma.

Snorri tók nebbla hirð vina sinna með sér til Fjarkistan að leika sér í stóra sandkassanum, eða þannig. Að öllu gamni slepptu, þá æxlaðist það þannig að nokkrir ágætir vinir hans sóttu um og fengu stöður, enda flestir Flugbjörgunarsveitarjaxlar með alls kyns viðeigandi reynslu.

Einn æskuvinur hans ætlar líka að hitta sína frú í Köben, svo við tjéllurnar förum saman snemma morguns 12.okt og hittum þá um kvöldið. Þannig gefst okkur tækifæri á að gera það sem okkur langar helst áður en þeir koma (veifandi visakortunum...)

Reyndar langar mig mest til að fara í allar antikbúðir og á alla flóamarkaði sem hægt er að finna. Snorri kvíðir því svolítið. Er búinn að taka af mér loforð um að hemja mig, en á móti sagði ég honum að hann yrði að láta sig hafa það að eyða með mér örlitlum tíma í þetta. Svo skjallaði ég hann til að mýkja hann upp og sagði að hann hefði svo gott auga. Sem hann reyndar hefur. Hann sér alltaf umsvifalaust ef eitthvað er að postulíninu eða kristalnum sem ég er á leiðinni að láta plata inn á mig. Svo finnst honum þetta ekkert leiðinlegt, svona í hófi.

Er búin að hósta stanslaust í meira en viku og ætla ekkert að losna við þetta. Er búin að tala við lækni, sem kvað þetta vera umgangspest. Er slöpp af svefnleysi, því hóstinn vekur mig endalaust. Ákvað að vera heima í dag, því á morgun er Amma Ruth opin og svo þarf ég að vinna á 101 annað kvöld. Þar verður mikið einkasamkvæmi sem ég var aðaltengiliðurinn í að skipuleggja (samkvæmishöldur er frá Bretlandi) og ég var búin að lofa að vera á staðnum.

Jamm. Best að leggjast aftur upp í. Eins gott að ég var nýbúin að fara á bókasafnið!

2006-09-14

Ársgamalt fótbrot!

Detti mér nú allar...

Strumpur kvartaði og kveinaði fyrir ári að sér væri alltaf svo illt í fætinum. Fórum til læknis sem kvað þetta vera vaxtarverki.

Strumpur kvartaði síðan alltaf öðru hvoru og var sagt að hætta þessu væli.

Á mánudaginn kom hann draghaltur af handboltaæfingu og ekki var hann skárri eftir 5 km hlaup í íþróttum í gærmorgun, svo ég druslaði honum aftur til læknis. Sá taldi best að láta mynda og sendi okkur upp á slysó.

Kom þar í ljós að allan þennan tíma hefur hann þjáðst af litlu ristarbeinbroti! Ræfilstuskurófan!

Er núna í spelku og með hækjur. Þarf reyndar ekki gifs, en þetta þarf að fá að jafna sig... nema hvað.

Er með mega samviskubit og dekra við hann hvað ég get...

Maður á að hlusta á börnin sín!

Á uppleið

Jæja, dagurinn í dag ER betri en í gær. Og vonandi verður morgundagurinn ENN betri! Margir ljáðu mér auga í gær og óskuðu mér bata. TAKK!

Skrýtið. Dagurinn í dag er í sjálfu sér ekkert öðruvísi en sá í gær. Mér bara líður ögn skár. Veit ekkert af hverju. (Auðvitað ekki, annars myndi ég láta mér líða betur oftar... dööööh).

Fór m.a.s. loksins að garfa í því að panta far til Köben og hótel, til að hitta Snorra á sinni heimleið frá Fjarkistan.

Undarlegur andsk... hvernig maður hefur sig ekki einu sinni í að gera það sem er sannarlega skemmtilegt - eins og að panta far til útlanda og finna lúxushótel!

Jamm.

2006-09-13

Svarti hundurinn

Það kallaði Árni Tryggvason þunglyndið. Hann (þ.e.a.s. hundurinn) er búinn að vera á hælunum á mér í nokkrar vikur og beit svo loks.

Það er vont að finnast maður vera vond móðir, ástlaus eiginkona, leiðinleg vinkona og ættingi. Vont að líta í spegil og sjá bara súra, sviplausa kellingu, sem virðist eldast hraðflugi. Vont að þurfa að beita öllum sínum kröftum í að fara fram úr á morgnana og finna svo einhvern varaforða til að komast út úr húsi. Vont að geta ekki grátið, ekki hlegið, ekki haft áhuga á neinu, nema sofa.

Líkaminn segist vera þreyttur og þjáður. Skynsemin segir mér að hugurinn stjórni ferðinni og plati líkamann. Samt er ég þreytt og þjáð.

Verst er þegar fólk hrósar mér fyrir að líta vel út. Af því að ég hef grennst smávegis. Andlitið er fölt, tekið og laust við farða. Hárið er eins og heysáta. Fötin eru það sem fannst á gólfinu. Augun eru líflaus. En ég hef grennnnnnssssstttt! Jeiiiii. Kemur helst til af því að ég hef ekki áhuga á að borða frekar en að ég hafi áhuga á neinu öðru. Borða samt af gömlum vana, en ekki mikið. Ótrúlegt að þetta skuli vera það eina sem sumt fólk sér.

Hef loks fengið góðan sálfræðing. En það miðar hægt. Þarf ég stærri skammt af lyfjum? Þarf ég öðruvísi lyf. Á ég að hætta að taka þau og ,,tala mig út úr tilfinningunum"? Er mögulega eitthvað að mér líkamlega? Þori varla lengur til læknis til að láta segja mér einu sinni enn að það sé ,,ekkert" að mér nema vefjagigt og þunglyndi.

Þetta kast er lengra en flest þau sem ég hef gengið í gegnum. Mál er að linni. Yfirleitt næ ég að telja í mig kjarkinn með því að tauta: Á morgun er nýr dagur. Og oftast er nýr dagur daginn eftir. En þegar nýr dagur lætur á sér standa vikum saman, fer ljósið við endan á göngunum að dofna. Hvenær getur maður með góðri samvisku ekki meir? Aldrei. En hvenær þagnar samviskan? Vonandi aldrei heldur.

Gott er að eiga besta son í heimi. En takmörk eru fyrir því hvað maður vill leggja á barnið sitt. Finn eiginlega alltaf örlítinn þrekblossa til að vera mamma. En ekki alltaf. Það er það versta í heimi!

Þyrfti nauðsynlega að reyna að rifja upp samlíkingu mína með sykursýki og þunglyndi. Bæði ólæknandi. Lífsnauðsynlegt að fylgjast vel sjálfur með einkennum og tékka á sér reglulega. Lífsnauðsynlegt að vera undir eftirliti fagmanneskju. Og ekkert sem maður getur gert að því að hafa fengið þennan sjúkdóm (þ.e.a.s. sykursýki I).

Gott að rifja þetta upp. Man að ég er ekki aumingi, heldur veik. Vonast til að mér batni bráðlega.

2006-09-12

Mamma talar um allt

Um daginn var ég að keyra með syni mínum. Hann talaði, að venju, út í eitt. Og spurði. Í þetta skipti spurði hann mig mýmargra persónulegra spurninga úr fortíð minni. Ég svaraði eftir bestu getu, svona eins og samviska mín og þroski hans leyfa. Engu laug ég en leyfði mér að svara ekki alveg öllu.

Svo kom stutt þögn (fjúkkett).

Svo sagði hann: Mamma, þú talar um allt! Svona er þetta ekki í Frakklandi.
Ég: Er það gott eða vont?
Hann: (með þunga) Gott! Það er hægt að tala við þig um allt. Það er frábært.

Ég elska hann líka...

2006-09-10

Bunga

Ekki svona hæð eða óléttukúla, heldur búð á Laugaveginum. Þar fást alveg ógysssslega sætir skór á 2.400,- Til í öllum regnbogans litum - útsaumaðir og agalega spes. Ekki reyndar fyrir vetrarveður. Frekar svona dúlluskór. En fyrir þennan pening, lét ég mig ekki muna um að kaupa tvö pör.

Bara að athuga að númerin inni í þeim eru tveimur of lítil. Ég nota númer 38 og keypti þar af leiðandi skó númer 40. Skilljú?

Þarna eru líka föt, sem passa á 12 ára stelpur en eru ætluð fullorðnum konum. Vörurnar eru nebbla frá Malasíu og ég sagði hjónunum sem reka búðina að þau þyrftu að láta gera fyrir sig oggulítið stærri föt svo þau pössuðu á íslenskar kjarnakonur. Þau tóku því vel - höfðu ekki alveg fattað þetta... Kannski fást þar fyrir jólin smart, öðruvísi föt í norðurhjarastærðum?

2006-09-06

Fimmti í sólberjatínslu

Það er verið að tína af sólberjarunnanum í fimmta sinn! Þetta er EINN runni. Ég held ég selji aðgang á næsta ári.

Hrikalega fékk ég góðan Nigellu-mat hjá Hildigunni í dag. Er enn að sleikja út um.

Fyndið. Einhvern tímann heyrði ég að umræðuefni kvenna eftir aldri væru svona:

10-20 ára: Föt og strákar
20-30 ára: Kynlíf
30-40 ára: Húsbúnaður
40-50 ára: Matur
50-60 ára: Heilsan
Yfir 60 ára: Hægðirnar

Ég er eitthvað seinþroska. Ég er enn á húsbúnaðarstiginu, þrátt fyrir heilmikinn mataráhuga. Og tek dýfur á fyrri skeið líka. Kannski einna helst að ég sé hætt að tala um stráka. Svoldið perró á mínum aldri. Tala auðvitað stundum um karlmenn... Tala reyndar um heilsu og hægðir líka. Vá. Ég er svona aldurslaus... eins og Catherine Deneuve...

2006-09-05

Tiltekt - taka númer fullt og eitthvað

Áfram í tiltektinni - nú er ég í bankareikningunum, visa-slippunum og svoleiðis namminammi. Alltaf vantar eitthvað af slippum - kannast einhver við það. Reyndar er ég að spá í að hætta að safna þessum slippum, því bóndinn skilar aldrei öllum inn, svo að þetta gengur hvort eð er aldrei upp.

Hins vegar er deginum ljósara að ég þarf að vera nákvæmari í yfirferð á slippum búðarinnar. Ég er nú þegar búin að finna 10.000 kall sem Landsbankinn skuldar Ömmu Ruth...!!! Skohhh!

Óxla (stafsetning Hildigunnar) leiðinlegt verk en ákaflega þarft. Vodka og tónik hjálpar.

Afmælisgleymska

Böööö... við strumpur verðlaunuðum okkur svo rækilega eftir vinnutörnina á sunnudaginn að við steingleymdum 14 ára afmæli sem búið var að bjóða okkur í. Skrifast algerlega á mig, reyndar, því ég hafði m.a.s. gleymt að segja honum frá þessu. Fórum full iðrunar með blómvönd í gærkvöldi og þáðum rústir. Frekar sneypin. Strumpur sagði þegar við vorum að leggja bílnum: ,,Við verðum víst að fara inn með skottið á milli lappanna"... Okkur var reyndar fyrirgefið, enda um eðalfólk að ræða.

2006-09-03

Heiladauði

Eftir hörkuvinnu í 8½ tíma (kortér í mat), er frúin nett steikt (svona medium-rare). Strumpur var líka að vinna - straujaði grilljón servíettur og þvoði og þurrkaði og braut saman. Fórum á Café Cultura eftir vinnu og fengum okkur í gogginn. Tókum þar með kjúllann sem átti að vera í kvöldmat út af dagskrá. Frestað til morguns.

Urðum sammála um að eftir svona törn væri það eina í stöðunni að leigja mynd og flatmaga. Tókum Jarhead. Samkvæmt útlistun í myndinni stendur það fyrir tóman haus. Fundum ákveðinn samhljóm. Ferlega tragísk mynd eitthvað, en samt hefur hún upp til hæstu hæða þessa macho typpaframlenginu sem riffill leyniskyttunar er. Fullvaxnir karlmenn sem fá grátkast yfir því að mega ekki skjóta einhvern - bara einhvern - alveg sama hvern... Mér er hálf flökurt. Þessi mynd pirraði mig hrikalega af því að hún vakti hjá mér samúð með aumingja mönnunum sem voru búnir að æfa sig og æfa, mánuðum saman, og fengu svo ekki að vera memm. Sem þýðir aðeins eitt: þetta er skratti vel gerð mynd en hún fór samt agalega fyrir brjóstið á mér. Óþægilegt.

2006-09-02

Er einhver þarna???

Sko, nú blogga ég feitt og næstum daglega en fæ engar athugasemdir (nema frá Hildigunni, takktakk). Nú er spurt: Er einhver að lesa? Fyrir utan Hildigunni. Væri voða gaman að vita það. Býð hér með þeim sem lesa að fara í comment og skilja eftir sig skilaboð. Alveg nóg að segja hæ.

Bíð spennt.

Geymsluþrif

Jamm. Skrifstofan fyrr í vikunni og geymslan núna. Reyndar svona yfirborðsþrif en komst að því að við eigum ótrúlega margar ferðatöskur. Mest fer fyrir monstrinu sem strumpur fékk í fermingargjöf frá systur minni. Hann fékk að fara með henni og velja sjálfur og keypti stærstu töskuna. Stærst = best. Mest fyrir peninginn o.s.frv. Nema monstrið kom með okkur í Ameríkutúrinn í júní og kemur ALDREI með aftur. það passaði bara í skottið á stærstu bílum og engan veginn er hægt að fylla þessa tösku án þess að hún hrökkvi yfir í yfirvigt (jafnvel þótt mar fyll'ana af frauðplasti...) Hann komst enn frekar að þessu á leið heim frá Frakklandi, þegar hann þurfti að punga út fullt af evrum í yfirvigt. En svona lærist ekki nema af reynslu. Stóri kosturinn við hana er að næstum allar aðrar töskur heimilisins komast ofan í hana, svo hún tekur ekkert mikið viðbótarpláss í geymslunni.

Fann annars ekkert markvert nema gamla skó, ló og könguló.

Veggfóður

Nú er ég búin að gúgla veggfóður þangað til chinoiserie og toile de jouy lekur út um öll skilningarvit. Og ekkert finn ég flottara en það sem ég er með uppi á vegg (fyrir utan auðvitað að það þarf að panta, bíða og borga morð fjár)! Bara skella sér á Laura Ashley fóðrið og demba þessu upp. Jibbirallirei! OK, smá varnagli. Áttaði mig á því að Bólstrarinn er með prufur sem hægt er að panta eftir. Þá getur maður alla veganna farið með heim og skoðað í mismunandi birtu. Frekar óhægt með það sem mar gúglar.

Já, engar vöflur - lifum hættulega!

2006-09-01

Ekki nóg með

að við hjónin ætlum til Florida í nóvember, heldur erum við líka búin að sammælast um að hittast í Köben þegar hann er á leiðinni heim! 12-17 október ætlum við að vera á huggulegu hóteli, borða góðan mat og fara á fullt af loppemarkeder... fyrir Ömmu Ruth. Reyndar þurfti ég að lofa því í Skype-samtali til Afghanistan áðan að eyða ekki öllum tímanum í antikbúðum og á flóamörkuðum. Ohhhhh... Ég er strax farin að safna addressum á antikbúðum og flóamörkuðum í Florida - svona á svæðinu þar sem við verðum. Alveg sjúk. Gott fyrir Ömmu Ruth.

Nú fer Tobias heim til Þýskalands í nótt. Gott verður að koma stofunni aftur í stand en slæmt að missa sláttumanninn. Verð bara að þjálfa strump.

Fór út að borða á 101 í gærkvöldi (fékk spes leyfi, því starfsfólki er ekki ætlað að borða þar, eins og víða í veitingageiranum). Verð eiginlega að mæla með matnum. Hann var bara æðislegur! Fengum rétt kvöldsins - hvítvínssoðna stórlúðu með humri og fettuchine. Algert lostæti! Það er von á nýjum matseðli, sem ég er að prófarkarlesa. Hann lítur hrikalega vel út og verðið er mjög sanngjarnt á réttunum.

Tók mér frí í gær og þreif skrifstofuna mína. Ekki veitti af! Fann margan fjársjóðinn, t.d. netfangið hjá kallinum sem er að smíða brynju á Snorra og eldgamlan miða með símanúmeri mannsins sem steypti fyrir mig kjallaratröppurnar fyrir tveimur árum og sem eru að gefa sig aftur. Hah! Nú fær hann sko að heyra í mér! Ég mundi nefnilega bara að hann hét Jónas, og auðvitað fékk ég aldrei neinn reikning hjá honum. Rosalega eru margir iðnaðarmenn gjarnir á að kúga fólk! Vinafólk mitt er búið að búa heima hjá foreldrum hennar síðan fyrir jól (!!!) því iðnaðarmennirnir sem eru að gera upp húsið þeirra (bara eina hæð, takið eftir), eru búnir að vera að gera flest allt annað (á öðrum stöðum). Þau voru að fá nýja áætlun í gær: a.m.k. 3 mánuðir í viðbót. Þá sagði vinkona mín stopp. Hún er að fara í erfiða aðgerð og sagði þeim að þetta gengi bara ekki lengur. Eftir að hafa lesið yfir þeim og þrýst á þá, kom ný áætlun: svona 10-14 dagar!!! Jamm. Sem segir sitt um fyrri áætlun. Guði sé lof að ég á góða að sem kunna að vinna með höndunum. Þrefalt húrra fyrir tengdapabba mínum og svila. Og Guðjóni píparavini.

Mikið veggfóðurstremma í gangi. Á ég að kaupa skrautlega Laura Ashley veggfóðrið sem engum finnst flott nema mér eða reyna að finna eitthvað flottara á netinu og kaupa í Ameríku (nú, eða Danmörku). Reyndar finnst fólki þetta veggfóður ekki ljótt - því finnst bara að það megi ekki vera svona skrautlegt í svefnherberginu (eða neins staðar annars staðar). Voðalegar skræfur eru þetta. Ef þetta verður algjör bömmer, þá mála ég bara yfir. Jújú, þetta kostar einhvern pening og vinnu, en maður verður nú að taka smá séns stundum ef maður fellur fyrir einhverju flottu. Ég minni fólk nú á að þegar ég ákvað að mála innréttingarnar gömlu, í eldhúsinu, ljósbláar og milliverkið kóralbleikt, voru uppi háværar efasemdarraddir. Nú, þetta kom bara vel út, þótt það hafi kannski ekki allir smekk fyrir að hafa svona heima hjá sér. Allir voða hissa hvað þetta er sætt. Nema ég. Jamm, það væri nú samt gaman að googla svolítið veggfóður... humm... hum...